Föstudaginn 23. nóvember kl. 13.00 mun Hekla Dögg Jónsdóttir halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.

Hekla Dögg Jónsdóttir mun kynna nokkur leiðarstef og einkenni verka sinna ásamt því að fara í gegnum vinnuferilinn með það að markmiði að draga upp mynd af hugmyndafræði verkanna og listsköpunar í heild sinni.

Verk Heklu Daggar hafa gjarnan einhverja virkni og eru knúin áfram af áhuganum á augnabliki ummyndunar og efnahvarfa. Hún hefur áhuga á því óræða millirými sem verður til við yfirfærslu, til dæmis þegar hún notar aðgengilega nytjahluti og framandgerir þá með því að færa þá yfir í annað samhengi. Virkni og efniseiginleiki skarast á við töfra og andlega þætti. Hekla bæði fangar og býr til aðstæður fyrir þessar heillandi ummyndanir sem listin gefur svo frjálst og opið rými.

Þessar ummyndanir eiga sér einnig stað í okkar eigin heimi: „Þegar smápeningi, einni öflugustu táknmynd efnishyggjunnar, er varpað ofan í óskabrunn verður hann skyndilega að ósk sem er einhverskonar andleg táknmynd.“

Hekla Dögg Jónsdóttir (f. 1969) stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1991 – 1994. Hún sótti skiptinám við Listaháskólann í Kiel í Þýskalandi og viðbótarnám við Staatliche Hochschule für Bildende Künste í Frankfurt am Main. Að loknu námi í Þýskalandi hélt Hekla til Bandaríkjanna til náms við Listaháskólann í Kalíforníu, California Institute of the Arts þaðan sem hún lauk MFA prófi árið 1999. Allt frá útskrift hefur Hekla verið virk í sýningarhaldi og hefur sýnt í söfnum og á öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Tate Modern safninu í London og Truck samtímalistamiðstöðinni í Calgary í Kanada.
Hekla hefur gegnt stöðu prófessors í myndlist við Listaháskóla Íslands frá árinu 2012 og var einn af stofnendum gallerí Kling & Bang árið 2003.

Opnir fyrirlestrar í Laugarnesi fara fram á haustmisseri 2018 á vegum listkennsludeildar, myndlistardeildar og sviðslistadeildar.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir. Facebook viðburður.