Föstudaginn 22.nóvember kl. 13 mun Haraldur Jónsson halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.

Í fyrirlestrinum mun Haraldur nálgast verk sín úr ólíkum áttum og flétta saman þá fjölmörgu þætti sem tengja þau saman. Skynjun á nánasta umhverfi, líkaminn, tilfinningar og tungumál eru leiðarstef sem liggja í gegnum allt hans höfundarverk. Verkin taka á sig fjölbreyttar birtingarmyndir og eru kveikjur að þeim oftar en ekki sú óvænta víxlverkun og margbrotna speglun sem á sér stað í bilinu milli skynfæra okkar í síbreytilegum kringumstæðum.
 
Haraldur Jónsson er fæddur árið 1961 í Helsinki, Finnlandi. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1984 - 1987, Kunstakademie Düsseldorf í Vestur-Þýskalandi 1987 – 1990 og Institut des Hautes Études í París, Frakklandi 1991 - 1992. Ferill hans spannar yfir þrjátíu ár og síðasta vetur var yfirlitssýning á verkum hans á Kjarvalsstöðum auk þess sem hann var útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur 2019. Haraldur hefur verið stundakennari við myndlistardeild LHÍ allt frá stofnun skólans.
 
Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er opinn öllum. Facebook viðburður.
 
rof_-_yfirlitsmynd.jpg