Föstudaginn 21. september kl. 13.00 mun Eygló Harðardóttir halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.

Eygló mun sýna myndir og ræða áhrifavalda, vinnuaðferðir og rannsóknir sem liggja að baki verkunum á einkasýningu hennar „Annað rými” sem nú stendur yfir í Nýlistasafninu í Marshallhúsinu. Þar sýnir hún einnig bókverkið „Annað rými”. Eygló mun lýsa vinnuaðferðum sem oft byggja á viðbrögðum við aðstæðum eða því efni sem hún kýs að vinna með, hvortheldur það er áþreifanlegur efniviður eða eigin upplifanir í dáleiðslu. Hún ræðir vinnuaðferðir sem byggja á forvitni og eru lausar við ákveðnar væntingar um lokaútkomu.

Eygló vinnur gjarnan skúlptúra og staðbundnar innsetningar, tví- og þrívíð abstrakt verk úr pappír sem, vegna eðli efnisins, eru forgengileg, háð tíma og aðstæðum. Hráefni eins og pappír, bæði nýr og endurnýttur, litríkur efniviður, plast, viður, grafít og gler leggja grunn að hugmyndum Eyglóar og drifkraftur til að kanna möguleika og takmarkanir miðilsins hverju sinni.

Opnir fyrirlestrar í Laugarnesi fara fram á haustmisseri 2018 á vegum listkennsludeildar, myndlistardeildar og sviðslistadeildar.

Eygló lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-87) og Akademie voor Beeldende Kunst en Industrie, í Enschede, Hollandi (1987-90), en auk þess hefur hún lokið Meistaragráðu í Kennslufræðum við Listaháskóla Íslands (2014). Á ferli sínum hefur Eygló haldið fjölda sýninga, þar á meðal einkasýningar í Harbinger (2015), Nýlistasafninu (1994, 1998 og 2002), Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni (2003) og Listasafni ASÍ (2007 og 2013).

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Facebook viðburður.