TERTA og Elliðaárstöð er þverfaglegt hönnunarteymi sem mun halda fyrirlestur í arkítektúr- og hönnunardeild Listaháskólans miðvikudaginn 1. mars næst komandi klukkan 12:15 í fyrirlestrarsal A, Þverholti 11.
Þverfaglega hönnunarteymið Terta hefur síðan árið 2019 unnið að hönnun og endurnýjun Elliðaárstöðvar sem nýs áfangastaðar með almenningsrými, gestastofu, veitingastað og fræðslu. Í fyrirlestrinum munu Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuður og Magnea Guðmundsdóttir arkitekt segja frá samstarfinu og hönnunarnálgun – hvernig saga staðarins, veiturnar og starfsemi Orkuveitunnar hafa veitt innblástur við hönnunina og leitt hana áfram.
Frá byrjun hönnunarferlisins er sérfræðiþekking og mismunandi sjónarhorn hvers fags fullnýtt sem skilar breiðari sýn á viðfangsefnið.
 
Rafstöðin í Elliðaárdal var vígð árið 1921 og lýsti leiðina til framtíðar. Rafmagnið og veiturnar sem fylgdu í kjölfarið umbyltu lífsgæðum borgarbúa og með þeim varð til þekking og hugvit sem samfélagið býr enn að í dag. Líkt og árnar voru áður virkjaðar verður nú lögð áhersla á að virkja fólk og hugvit í Elliðaárdal.
 
Terta samanstendur af Ármanni Agnarssyni, grafískum hönnuði, Brynhildi Pálsdóttur, vöruhönnuði, og Evu Huld Friðriksdóttur og Magneu Guðmundsdóttur, arkitektum á Teiknistofunni Stiku. Þau hafa öll starfað á fjölbreyttum vettvangi hvert á sínu sviði og unnið að margvíslegum sjálfstæðum verkefnum sem og samstarfsverkefnum. Meðal annars hafa þau komið að framleiðslu, bókahönnun, efnisrannsóknum, kennslu, sýningarhönnun, matarhönnun, mörkun, vöruþróun, hönnun á byggingum og borgarskipulagi. Þá hafa hönnuðir Tertu hlotið fjölmargar viðurkenningar og styrki.