Málstofa tónsmíða
Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir

Gestur málstofunnar að þessu sinni er Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir. Hún mun fjalla um það sem hún
hefur fengist við eftir útskrift frá LHÍ; plötur sem hún hefur gefið út, samstarfsverkefni með Kammersveit Reykjavíkur, SÍ, Nordic Affect og kór Breiðholtskirkju ásamt vinnu hennar í leikhúsi. Hún mun fjalla um hvernig ólíkir flytjendur hafa haft áhrif á smíð tónverka hennar og hvernig þau hafa mótað verkin sjálf í spuna og túlkun á náttúruhljóðum, þ.e. hvala- og fuglasöng.
Aðgangur ókeypis og öll velkomin.

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir

Ingibjörg Ýr lauk B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands vorið 2016 þar sem kennarar hennar voru Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Anna Þorvaldsdóttir. Þá um haustið hélt Ingibjörg til Bretlands í hálfs árs starfsnám hjá Önnu Þorvaldsdóttur. Ingibjörg Ýr hefur unnið með kórum, dönsurum, leik- og kammerhópum og kvikmyndagerðarfólki. Á Myrkum músíkdögum árið 2019 frumflutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verk hennar O sem hluta af YRKJU IV, vinnustofu SÍ og Tónverkamiðstöðvar. Sama ár var O annað af tveimur fulltrúum Íslands á Alþjóðlega tónskáldaþinginu Rostrum í Argentínu. Þá kom einnig út Hulduhljóð, fyrsta plata listhópsins Hlakkar sem Ingibjörg er stofnmeðlimur í. Hlaut sú plata Kraumsverðlaunin ásamt tilnefningu til plötu ársins í opnum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum. Þar var Ingibjörg Ýr einnig útnefnd bjartasta vonin í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Árið 2023 var verk hennar Fasaskipti tilnefnt sem tónverk ársins í sama flokki.
 
Ingibjörg hefur reglulega unnið með Kammersveit Reykjavíkur, Nordic Affect og kór Breiðholtskirkju. Á Myrkum músíkdögum fyrr á þessu ári frumfluttu Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur verk hennar Pons papilloma og Balaena. Ingibjörg Ýr hefur lengi unnið með Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur sem dúóið Ingibjargir. Plata þeirra Konan í speglinum kom út í október síðastliðnum og verða útgáfutónleikar þann 19. nóvember.