Listir, geðshræringar og dygðir:

Mannkostamenntun í gegnum myndlist

 
Boðið verður upp á opinn hádegisfyrirlestur, 12.10- 12.50 í Laugarnesi þriðjudaginn 6. desember ´17.
 
Í fyrirlestrinum ræðir Ingimar Ólafsson Waage, listamaður og aðjúnkt við listkennsludeild LHÍ um mannkostamenntun (e. character education) og tengsl hennar við myndlist.
 
Ágrip
 
Oft er hugsað til listgreinanna sem mikilvægra í menntun einkum vegna þess hvernig þær ná til þeirra sviða hugsunarinnar og skynjunarinnar sem eru handan við röklega fótfestu tungumálsins.
 
Rökvísi listanna sækir hráefni sitt til skynfæranna þar sem upplifanir og skynjun eru tengd saman í eina órofa heild meðvitundarinnar.
 
Listirnar voru samnefnari yfir mannlegt líf; trúarleg innræting með myndmáli blés fólki trúarhita í brjóst og yfirvöld notuðu listirnar til áróðurs. Vísindaleg þekking þróaðist hratt og fól í sér vatnaskil.
 
Menntun fól í sér viðurkenningu á hinni vísindalegu aðferð; það eitt skyldi unnið með sem hægt var að færa sönnur á með áþreifanlegum hætti.
 
 
Menntunarhugsun samtímans krefst þess að hugað sé að fleiri þáttum en hinum áþreifanlega sannleika eins og sjá má í grunnþáttum menntunar og hæfniviðmiðum aðalnámskrár.
 
Slíkar hugmyndir eru náskyldar mannkostamenntun (e. character education). Hlutverk skólanna er ekki lengur að kenna aðeins lestur, skrift og reikning, heldur einnig umburðarlyndi, skilning og sjálfsþekkingu.
 
Því er haldið fram að listaverk geti ekki borið trausta þekkingu á borð vegna þess að ekki sé unnt að sannreyna hana.
 
Bandaríski listheimspekingurinn Noël Carroll heldur því hins vegar fram að finna megi menntunargildi listaverka stoð á mörgum sviðum. Að mati Carroll geta listaverk hvatt til ígrundunar og umhugsunar, jafnvel geðshræringar, sem minnir okkur á hið sammannlega og sameiginlega reynslu okkar.
 
Margbreytilegt eðli listarinnar réttlætir tilvist hennar í menntun þar sem hún býður nemendum upp á þátttöku í glímunni við siðferðileg álitamál, bæði með því að mæta þekktum listaverkum sem og þeirra eigin sköpunarverkum.
 
Hið fagurfræðilega og hið siðferðilega býr yfir gagnvirkni; fagurfræðileg upplifun grynnkar ef hið siðferðilega er ekki ígrundað með hjarta og huga að sama skapi og öfugt.