Listamannaspjall í Dynjanda,
Skipholti 31, 105 Rvk
Kl. 16:00 - 31. ágúst 2022

Að skapa list með vélum: Raddir, hljóðfæri, líkamar og hljóð 

Yfir sumartímann gengu nokkrir nýir rannsakendur til liðs við Intelligent Instruments Lab. Tveir þeirra, Marco Donnarumma og Jonathan Chaim Reus, munu halda kynningu á verkefnum sínum í tengslum við fyrstu afmælishátíð rannsóknarstofunnar (auk fyrirlestranna höldum við tónleika í Mengi daginn eftir, þann 1. september). Marco og Jon eru báðir listamenn sem starfa þvert á listgreinar með tónlist í grunninn, en fara þó út fyrir tónlistarsviðið og yfir í margmiðlun, sviðslistir, leikhús, hönnun, gervilimi, holdtekningu og gervigreind.  Kynningarnar eru 30 mínútur hvor og að þeim loknum verður boðið upp á léttar veitingar yfir pallborðsumræðum með listamönnunum tveimur ásamt Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur og Jóhannesi Dagssyni, sérfræðingum í listrænum rannsóknum og heimspeki. Umræðum stjórnar Þórhallur Magnússon. 

Umfjöllunarefni pallborðsins inniheldur: 

  • Líkamslist og gervilimir með tækni 

  • Sviðslist og holdgerving í stafrænni list 

  • Gervigreind og listræn tækni (hvers vegna notum við slíkt?) 

  • Hið þverfaglega í samtímalist 

  • Hlutverk tækni í menningarlegum og pólitískum viðburðum í samfélaginu (siðfræði og mannfræði) 
     

Marco Donnarumma - Virkni gervigreindar - líkamar, hljóð og vélar

„Í þessu spjalli mun ég fara yfir nokkur verk þar sem ég nota vélanám, þjarkafræði (e. robotics) og gervigreind til að varpa ljósi á ákveðnar tækni- og menningarlegar einingar sem verða til við sköpun þeirra. Verkin eru allt að áratugagömul og munu vonandi gefa nasasjón af því hvernig hugtakið gervigreind hefur breyst í málflutningi almennings gegnum tíðina. Annarsvegar mun kynningin fjalla um ýmsar leiðir til að skilgreina miðlunar- og sviðslistaverk sem sköpuð eru með tilstilli tölvna og hinsvegar munu umræðurnar hjálpa okkur að rekja tengsl milli menningarlegrar skilgreiningar á því sem er öðruvísi (e. otherness), notkunar tóla úr miðlunarlist í gagnrýnum rannsóknum og tækniþróunar á tímum nýfrjálshyggju.“ 

Jonathan Chaim Reus - Eitthvað við mennskuna 

„Í spjallinu mun ég hoppa til og frá um víðáttumikla braut verka sem ég hef skapað á undanförnum fimm árum. Allt frá tilraunum til að brjóta niður skynsvæði heilans í að flytja tónlist með róbotum úr segulbandssnældum, og allt þar á milli. Þau þemu sem ég skoða hvað helst í mínum verkum eru blæbrigði og þversagnir í frásögnum innan vísinda og tækni, en auk þess mun ég fjalla um arfleifð hljóðfæra, vísindalega þekkingu og það hvernig ég hyggst tala við kynslóðir framtíðarinnar gegnum gagnasafn.“ 

Um listamennina 

donnarumma-pevere_eingeweide_by-nada-zgank_104.jpg

Marco Donnarumma

Marco Donnarumma (DE) er listamaður sem starfar við sviðslistir, sviðstjórn og fræðimennsku og hefur einbeitt sér að því að flétta saman sviðslistir samtímans, nýmiðla og gagnvirka tölvutónlist allt frá aldamótum. Í verkum sínum notast hann við líkama, skapar kóreografíur, smíðar vélar og semur hljóð. Hann vinnur þvert á reglukerfi, miðla og tækninýjungar og umbreytir þeim í draumkennda, munúðarfulla og ósveigjanlega fagurfræði. Hann er þekktur á alþjóðavettvangi fyrir framlag sitt til gjörningalista en það verður seint flokkað undir einhverja eina listgrein. Hann umbreytir líkamanum í myndrænt tungumál sem fjallar á gagnrýninn hátt um siðareglur, völd og tækni. 

Donnarumma er með doktorsgráðu í sviðslista-, reikni- og líkamafræði frá Goldsmiths háskólanum í London. Árin 2020 og 2021 starfaði hann við rannsóknir í Akademie­ für Theater ­und Digitalität í Dortmund. Þar áður, á árunum 2016 til 2018, starfaði hann við rannsóknir í Listaháskólanum í Berlin í samstarfi við Neurorobotics Research Laboratory. Skrif hans hverfast um fræðigreinar á sviði sviðslista, líkama, fegurðar, sambands tölvu og manns og óhefðbundinna útreikninga. Hann var einn af meðstofnendum listahópsins Fronte Vacuo árið 2019.

https://marcodonnarumma.com

4n1a6805-e1488375329914-1144x609.jpeg

Jonathan Chaim Reus

Jonathan Chaim Reus er listamaður sem starfar þvert á sviði tónlistar og annarra miðla, þekktur fyrir að nota tilraunakenndar útsetningar, bæði í lifandi flutningi og í innsetningum. Hann fæddist í New York en fluttist ungur til Amsterdam og síðar Flórída þar sem hann gekk til liðs við bandarísku “new weird” listahreyfinguna. Hann fluttist aftur til Hollands nokkrum árum seinna og byrjaði þar að þróa tónlistarflutning þar sem hann blandaði saman spuna og miðlunarlistum og skapaði alveg einstaka nánd. Hann er einn af stofnendum framtaks uppfinningamanna í hljóðfærum (e. instrument inventors initiative [iii]) í Haag og Netherlands Coding Live [nl_cl]. Hann hefur einnig hlotið W.J. Fulbright Fellowship fyrir rannsóknir sínar á rafrænum hljóðfærum sem hann vann hjá Studio for Electro-Instrumental Music [STEIM] í Amsterdam.  

Jonathan smíðaði einnig tónverk fyrir Stedelijk safnið í Amsterdam, Slagverkssveit Haag og Asko-Schönberg sveitarinnar í samtímatónlist. Í því fellst frumsköpun tónlistar og flutningur með hljóðfæri sem hannað er úr segulbandssnældum í Brave New World 2.0, en sú sýning flakkaði víðsvegar um Holland. Hann er helmingur listadúósins Sensory Cartographies, á móti Sissel Marie Tonn, sem skapaði hljóðinnsetningu í formi fatnaðar sem hét The Intimate Earthquake Archive og gerði garðinn frægan á Ars Electronica hátíðinni árið 2020. Árið 2022 vann hann CTM Radiolab umboðslaunin fyrir 12 mánaða útvarpsverkefni sem hét In Search of Good Ancestors og flutt verður á þýsku ríkisútvarpsstöðinni Deutschlandfunk Kultur. 

https://jonathanreus.com/