Tónskáldin Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Lilja María Ásmundsdóttir fjalla um og spila tónlist sína í málstofu tónsmíðanema, föstudaginn 25. janúar 2019. Með þeim kemur fram Ingibjörg Fríða Helgadóttir, söngkona. 

Málstofan fer fram frá 12:45 - 14:30 í S304 - Fræðastofu 1, Skipholti 31.  Öll velkomin.
 

Nánar

Lilja María Ásmundsdóttir fjallar um fjögur ný verk sem frumflutt verða á tónleikum hennar og Berglindar Maríu Tómasdóttur, sem fram fara á tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar. Tónleikarnir verða haldnir í Listasafni Reykjavíkur, 2. febrúar kl. 15:30 en þar hljómar tónlist fyrir bassaflautu, píanó, hljóðfærið Lokk og hljóðskúlptúrinn Lurking Creature. 

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir fjallar um tvö tónsmíðaverkefni sín. Annars vegar um hljómsveitarverk sitt O sem verður frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands á Uppskerutónleikum Yrkju sem fram fara föstudaginn 1. febrúar nk. Stjórnandi tónleikanna er Bjarni Frímann Bjarnason en auk verks Ingibjargar mun hljómsveitin frumflytja tónsmíð Hauks Þórs Harðarsonar, Memory's Wavering Echo. Yrkja er samvinnuverkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og Sinfóníuhljómsveitar Ísland en Ingibjörg Ýr og Haukur Þór nutu handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskálds SÍ, við samningu verkanna.   

Hins vegar mun Ingibjörg Ýr fjalla um, og flytja brot úr verkefninu Konan í speglinum, sem er samstarfsverkefni Ingibjargar Ýrar og Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og byggir á ljóðum Ingibjargar Haraldsdóttur ljóðskálds. Þær nöfnur munu flytja brot úr Konunni í speglinum í málstofunni.

 

Um Ingibjörgu

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir hóf tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands haustið 2013. Helstu leiðbeinendur hennar voru Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Anna Þorvaldsdóttir. Hún útskrifaðist þaðan vorið 2016 og hóf þá um haustið hálfs árs starfsnám hjá Önnu Þorvaldsdóttur á Englandi.

Ingibjörg hefur unnið með leikurum, sviðshöfundum, leik-, dans og kammerhópum og kvikmyndagerðarmönnum. Frá útskrift hefur hún tvívegis hlotið styrk frá Tónskáldasjóði RÚV og vinnur nú að hljóðritun á verki sínu „Hulduhljóð að handan“ ásamt Lilju Maríu Ásmundsdóttur. Var það verkefni styrkt af Hljóðritasjóð RANNÍS.

Um Lilju Maríu

Lilja María Ásmundsdóttir er tónskáld og píanóleikari. Hún útskrifaðist með B.Mus gráðu í píanóleik frá Listaháskóla Íslands vorið 2016 og hefur undanfarin ár stundað mastersnám í tónsmíðum við City, Lundúnaháskóla.
Í tónsmíðum sínum rannsakar hún tengslin á milli ólíkra listforma, einkum og sér í lagi á milli myndlistar og tónlistar. Tónlist Lilju hefur meðal annars verið flutt á tónleikaröðinni Hljóðön, á Myrkum músíkdögum og í Mengi.​

Sumarið 2016 hlaut Lilja María styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa ljósaskúlptúrinn Huldu. Verkefnið var tilnefnt til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2017. Lilja María flutti píanókonsert í G-dúr eftir Maurice Ravel ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2015 á tónleikunum Ungir einleikarar en þar koma fram einleikarar og einsöngvarar sem hafa borið sigur úr býtum í árlegri einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sem píanóleikari hefur Lilja María lagt áherslu á að miðla tónlist 20. og 21. aldar.