Viltu starfa við tónlist í framtíðinni?

Opinn kynningarfundur á starfi tónlistardeildar LHÍ
Laugardaginn 7. apríl klukkan 12 - 13
Skipholti 31
Allir velkomnir

Í tónlistardeild LHÍ er boðið upp á ótal fjölbreyttar námsleiðir fyrir tónlistarnemendur og tónlistarfólk framtíðarinnar. Við deildina starfar stór hópur virtra lista- og fræðimanna úr flestum geirum tónlistarlífsins en á meðal námsleiða sem nemendur geta valið sér eru tónsmíðar, skapandi tónlistarmiðlun, hljóðfærakennsla og kirkjutónlist.

Hlutverk tónlistardeildar er að mennta tónlistarmenn og undirbúa þá fyrir störf í tónlist á breiðum grundvelli. Markmiðið er að þeir tileinki sér sjálfstæð vinnubrögð, auki við þekkingu sína og færni og rækti sjálfa sig sem sjálfstæða listamenn. 

Hvað segja nemendur um námið?

„Allar brautir tónlistardeildar LHÍ eru mjög samheldnar og starfa mikið saman, það leggur góðan grunn fyrir framtíðina. Gefandi samvinna hljóðfæranema við tónsmíðanema bætir samskipti, dýpkar skilning og eykur reynslu af skapandi og gagnrýninni hugsun, sem er svo mikilvæg fyrir alla."
Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir, hljóðfæranemi

„Á söngbraut tónlistardeildar ber nemandinn ábyrgð á sínu námi. Hann fær frelsi til að skoða hvar áhuginn liggur og hver framtíðaráform hans eru. Ástríða kennara og nemenda fyrir tónlistarsköpun er alls ráðandi og nemendur fá að njóta sín á ólíkum sviðum, t.d. í samspili, spuna, og í vinnu við eigin verkefni."
María Sól Ingólfsdóttir, söngnemi

„Í LHÍ eru kennarar sem koma úr mörgum mismunandi áttum og hjálpa þér að móta hugmyndir þínar hvort sem þær eru einleiksverk fyrir píanó, kammerverk, margrása rafverk, hljóðskúlptúr eða gjörningur. Þú lærir að skoða tónlist frá mörgum sjónarhornum og beita gagnrýninni hugsun, jafnt í hugmyndafræðilegri sem verklegri vinnu.“
Pétur Eggertsson, tónsmíðanemi

Námsleiðir á bakkalárstigi:

- Söng- og hljóðfærakennsla í klassískri og rytmískri tónlist
- Skapandi tónlistarmiðlun
- Klassískur söngur og hljóðfæraleikur
- Tónsmíðar nýmiðla og hljóðfæra
- Kirkjutónlist

Námsleiðir á masterstigi:
- Söng- og hljóðfærakennsla
- Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (NAIP)
- Tónsmíðar

UMSÓKNARFRESTUR Í BAKKALÁRNÁM ER 9. APRÍL