Útskriftartónleikar Júlíu Traustadóttur Kondrup frá tónlistardeild LHÍ fara fram í Safnahúsinu 19. maí kl. 15. Fram koma: Júlía Traustadóttir Kondrup, sópran, Matthildur Anna Gísladóttir, píanó og semball og Hlynur Þorsteinsson, leikari. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.

Efnisskrá:

- Jórunn Viðar (1918-2017) / Valgarður Egilsson: Sönglað á göngu
- Hugo Wolf (1860-1903) / Paul Heyse: Mein Liebster singt & Man sagt mir
_ Ljóðalestur: Draumur eftir Dóru Kondrup (1950-2006)
- Barbara Strozzi (1619-1677) / Ókunnur höfundur: Giusta negativa
- Henry Purcell (1659-1695) / Ókunnur höfundur: Bess of Bedlam
- Hugo Wolf / Paul Heyse: Du denkst mit einem Fädchen & Du sagst mir
- Ljóðalestur: Abba-labba-lá eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964)
- Franz Liszt (1811-1886) / Heinrich Heine: Die Loreley
- Ljóðalestur: Svarið eftir Dóru Kondrup
- Jórunn Viðar / Jakobína Sigurðardóttir: Vökuró
- Francis Poulenc (1899-1963) / Jean Nohain: Nous voulons une petite soeur

Júlía Traustadóttir Kondrup hóf nám í fiðluleik fimm ára gömul við Suzuki tónlistarkólann í Reykjavík hjá Lilju Hjaltadóttur. Tólf ára hóf hún nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hún lauk síðar 7. stigi í fiðluleik. Hún stundaði söngnám í sama skóla frá árinu 2004, fyrst hjá Elísabetu Erlingsdóttur og síðar hjá Hlín Pétursdóttur. Í lok árs 2006 hlaut Júlía inngöngu í Royal College of Music í Lundúnum, þar sem hún hóf söngnám haustið 2007 undir handleiðslu Jennifer Smith. Þaðan útskrifaðist hún með BMus(hons.) í sönglist sumarið 2011.

Á námsárunum í London sótti Júlía meistaranámskeið hjá Patricia Rozario, Roger Vignoles, Stephen Varcoe og Sally Burgess. Hún tók þátt í margvíslegum tónleikum og verkefnum innan og utan skólans. Til að mynda kom hún fram sem einsöngvari í Cambridge, Bath og í útvarpsþætti á BBC Radio 3.

Júlía stundaði meistaranám við listkennsludeild LHÍ 2013-2015. Undanfarinn vetur hefur hún verið nemandi við söng- og hljóðfærakennsludeild LHÍ á meistarastigi og lýkur námi sínu nú með útskriftartónleikum.

Ljósmynd af Júlíu: Leifur Wilberg