Ég finn fyrir mætti Sólheimajökuls þegar jökulvatnið rennur, heyri í dropunum og finn fyrir brakinu í ísnum. Jökullinn er lifandi — hann endurnýjar sig stöðugt. Jökullinn býr til ís á sama tíma og annar hluti hans bráðnar. Þessi endurtekna hringrás jökulsins breytir honum með tímanum, mótar landslagið undan honum, flytur jarðefni, slípar og rýfur í berggrunninn sem heldur honum uppi. Þessi hreyfing kallast jökulrof og merki um það má finna við skriðjökla eins og Sólheimajökul.

Íris María Leifsdóttir túlkar með verki sínu Jökulrof hvernig hreyfing jöklanna birtist henni. Íris María miðlar hreyfingunni með hljóðverki af jöklinum, skúlptúr af bráðnandi ís og með gjörningi þar sem hún skapar myndlist með jökulleir og sandi úr Sólheimajökli og ösku úr Kötlu. Bráðnun jöklanna er ein helsta birtingarmynd umhverfisbreytinga samtímans, en með verkum sínum varpar Íris María fram brotum af eigin upplifun gagnvart þeim breytingum sem eru yfirvofandi.

Sérstakar þakkir hljóta: Antonía Berg, Anna Rún, Ingunn Fjóla, Unnar Örn, Jóhannes, Andrea Eik, Elísabet, Steinunn Ólína, Ragnheiður Harpa, Deepa, Klakavinnslan og Anton Sturla.

Íris María Leifsdóttir (1993) er á lokaönn í M.A. námi í myndlist við LHÍ. Hún lauk námi við listmálun í Myndlistarskóla Reykjavíkur 2020 og útskrifaðist með B.A. gráðu í félagsfræði 2021. Veðrun og áhrif tímans leika lykilhlutverk í listsköpun Írisar Maríu þar sem hún leyfir náttúruöflunum að móta málverk sín og skúlptúra. Ummerki veðuráhrifanna eru skrásett með ljósmyndun sem veita innsýn í ferli og niðurbrot þeirra efna sem Íris María notar við listsköpun sína.

Opnun á föstudaginn 10.03.23 kl. 16. Opið þar til ísinn bráðnar.