Hugarflug 2022 - Enginn er eyland

Árleg ráðstefna Listaháskóla Íslands Hugarflug fer fram dagana 22. og 23. september.
Dagskrá og upplýsingar um alla þátttakendur má finna á hugarflug.lhi.is

Dagskráin er opin öllum og ókeypis í Listaháskóla Ísland, Laugarnesvegi 91.
Opnunarviðburður Hugarflugs verður fimmtudaginn 22. September, kl. 16:00-18:00

 

-
Við stöndum á vendipunkti ýmiskonar áskorana loftslagsbreytinga, heimsfaraldurs, réttindabaráttu og einnig stríðshörmunga í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu. Þetta eru sannarlega víðsjárverðir tímar en við leitumst við að greina stöðuna og hvað framtíð ber í skauti sér. Það sem blasir við er hin brýna nauðsyn á að hlúa að samfélögum okkar, næra grunngildin sem skipta mestu máli í lífi heildarinnar og hvers einstaklings. Hvernig tryggjum við best samstöðu gegn ofríki og fyrir friði og réttlæti? Hver eru þau gildi, hvernig höldum við áfram, saman, inn í framtíðina sem við vitum ekki hver er; náttúran og tegundirnar sem saman skapa vistkerfið sem við lifum í? Hvernig sköpum við saman, hvernig dreymum við saman, heim sem heldur utan um alla?

Á Hugarflugi Listaháskóla Íslands 2022 viljum við fjalla um hvernig hver manneskjan er hluti af heild, stundum mörgum heildum. Hvernig hver upplifun og gjörð er bundin stærra samhengi. Hvernig við flæðum, í stað þess að standa föst; hvernig við tengjumst sem heild, frekar en að standa ein; hvernig við horfumst í augu við þann möguleika að ekkert eitt okkar geti reitt fram lausn, heldur liggi hún í samtakamættinum, nú og til framtíðar.