Gestagangur í nóvember kynnir til leiks Tinnu Ottesen sem mun halda fyrirlesturinn Horfðu til himins – hugleiðingar um lofthæð og líkama fimmtudaginn 22. nóvember næst komandi klukkan 12:15 í fyrirlestrarsal A, Þverholti 11.
Tinna Ottesen kallar sig 'Spatial Storyteller, og vinnur með frásagnareiginleika rýmis í innsetningum, hönnun, kvikmyndum og sviðslistum. Í fyrirlestrinum mun Tinna deila hugleiðingum sínum og rannsóknum um það sem er fyrir ofan okkur, bæði innandyra og utan, hvernig við bregðumst líkamlega við því og hvað við lesum úr því.
Tinna Ottesen er með post MA gráðu í 'Advanced scenography' frá a.pass í Brussel. Hún stundaði mastersnám sem gestanemandi í því sem kallað er 'production design' frá danska kvikmyndaskólanum (Den Danske Filmskole) og lauk B.A gráðu í sjónrænum samskiptum (visual kommunikation) frá danska hönnunarskólanum KADK. Þá var Tinna eina önn sem skiptinemi við Listaháskóla Íslands.
Hún hefur starfað sem leikmyndahöfundur í sviðsverkum og uppsetningum, hannað kvikmyndir, sjónvarpsþætti og viðburði, auk rýmis-innsetninga sem hún hefur bæði unnið ein og með öðrum. Tinna er jafnframt stundakennari við námsbraut í MA námi við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.
---
Með Gestagangi er ætlunin að veita áhugasömum innsýn í þær rannsóknir og störf sem eiga sér stað í hönnun og arkitektúr bæði hérlendis og erlendis. Gestirnir koma víða að og munu varpa skýrri mynd á fjölbreytileika hönnunarsamfélags samtímans. Fyrirlesararnir eiga það allir sameiginlegt að vera stundakennarar eða erlendir gestakennarar við hönnunar- og arkitektúrdeild og leiðandi hönnuðir á sínu fagsviði.
Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er öllum opinn.