Þriðja ár í vöruhönnun í LHÍ stendur fyrir sýningunni ‘Hér er mýri um mýri frá manni til mýrar’ sem opnar kl 18:00 þann 25. nóvember næstkomandi í Slökkvistöðinni, Gufunesi.

Um miðbik síðustu aldar réðust Íslendingar í stórfelldar aðgerðir við framræslu mýrlendis. Í dag hafa rannsóknir leitt í ljós að fjöldi skurða sem grafnir voru hér á landi losa margfalt meira kolefni en heilbrigð mýri. Fjöldi þessara skurða sem grafnir voru á sínum tíma voru vissulega búbót fyrir bændur því framræst mýri er gott beitiland, en fór framræslan upp úr öllu valdi og í dag er einungis 15% af framræstu landi á Íslandi nýtt sem sem slíkt. Með endurheimt mýrlendis getum við spornað við þessarri þróun og mýrin fer að binda kolefni á ný. Þessu ferli fylgir einnig endurheimt á búsvæði plöntu- og dýralífs.

Hópurinn hefur rannsakað mýrlendi síðustu mánuði og áhrifin sem framræslan hefur á landið okkar. Til miðlunar á þessum rannsóknum hefur hópurinn sett saman sýningu sem leiðir gesti í gegnum uppgötvunarferðalag á mýrinni.

Nemendur hafa tileinkað sér viðfangsefnið og gert það aðgengilegt
í sýningu sem er jafnframt stefnumót manns og mýrar og tilraun til að endurnýja/endurheimta samband okkar við þetta ótrúlega fyrirbæri. Á sýningunni verður fagurfræði mýrarinnar gædd nýju ljósi og verða öll skynfærin virkjuð til að tengjast henni betur.

Sýningin verður haldin í nýju sýningarrými sem kallast Slökkvistöðin þar sem Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var áður til húsa. Áburðarverksmiðjan sem var vígð 1954 og hóf þá framleiðslu á áburði hérlendis hefur átt stóran þátt í sögu vélvæðingar landsins og framræslu mýra hér á Íslandi.

Sýningin hentar öllum aldri, við hlökkum til að sjá ykkur!

 

Nemendur eru:
Ásgerður Ólafsdóttir
Guðrún Kolbeinsdóttir
Hlynur Arnarson
Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Kamilla Henriau
Logi Pedro Stefánsson
Svala Grímsdóttir
Valgerður Birna Jónsdóttir

 

Kennari námskeiðisins er Anna Diljá Sigurðardóttir.