Föstudaginn 28. apríl klukkan 13:00 mun Hildur Bjarnadóttir halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal Myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.

Síðustu ár hefur Hildur unnið viðamikið verkefni sem á sína efnislegu og hugmyndalegu rætur í landspildu sem hún eignaðist fyrir nokkrum árum í Flóahreppi. Landið er uppspretta lita fyrir ofin málverk og lituð silkiverk sem mynda svæði og ástand í sýningarsölum. Það er rýmishugsun litarins sem yfirfærist af plöntum landins í ofið efni. Eldri verk hennar byggja á handverki sem tengt er konum og í einu tilteknu verkefni ömmu Hildar og tengsl hennar við ákveðinn stað í gegnum gróður  sem þar vex. Í verkum Hildar er liturinn efniviður sem ber með sér upplýsingar um staðinn og það fólk sem umgengst hann. Fyrir Hildi er landspildan í Flóahreppi vettvangur til að velta fyrir sér viðfangsefnum í tengslum við það að eiga sér rætur á tilteknum stað og ennfremur þeirri vistfræðilegu röskun sem umgengni mannsins við náttúruna getur valdið.

Hildur Bjarnadóttir býr og starfar í Reykjavík og í Flóahrepp. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið1997 með MFA próf frá Nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Haustið 2013 hóf hún doktors nám í myndlist við Listaháskólann í Bergen sem hún lauk í byrjun árs 2017.  Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim þar má nefna; Vistkerfi Lita í Vestursal Kjarvalsstaða 2016,  Colors of belonging í Bergen Kjøtt í Noregi 2015,  Subjective systems í Kunstnerforbundet í Oslo og Kortlagning lands í Hverfisgallerí árið 2014, Flóra Illgresis í Hallgrímskirkju 2013, Samræmi í Hafnarborg ásamt Guðjóni Ketilssyni, 2011. Hildur gegnir stöðu dósents við Meistaranám Listaháskóla Íslands.

Hamskipti er yfirskrift fyrirlestrarraðar í myndlistardeild Listaháskóla Íslands nú á vorönn. Mikil endurnýjun hefur orðið meðal fastráðinna kennara deildarinnar að undanförnu, en alls tóku 5 nýjir háskólakennarar til starfa við deildina á haustmánuðum 2016.

Í fyrirlestrinum mun Hildur fjalla um sínar vinnuaðferðir í gegnum þrjú verkefni: Samræmi, Flóra Illgresis og Vistkerfi Lita. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og eru allir velkomnir.

Facebook viðburður