Útskriftarnemendur leikarabrautar LHÍ takast á við Hamlet, eitt frægasta verk  William Shakespeare. Sígildur og stórbrotinn, í senn heimspekilegur og blóði drifinn harmleikur sem settur hefur verið á svið um allan heim og á ótal tungumálum. Í ár er Listaháskóli Íslands í samstarfi við Þjóðleikhúsið og LA og verður verkið frumsýnt í Samkomuhúsinu þann 19. maí, önnur frumsýning í Kassanum, Þjóðleikhúsinu þann 25. maí. 

 

Ávarp fagstjóra

Það er ekki hægt að segja annað en að útskriftarárgangur leikarabrautar við LHÍ árið 2022 hefur gengið í gegnum ýmislegt á sinni skólagöngu. Á miðri vorönn 2020, á fyrsta ári þeirra skólagöngu, var öllu skellt í lás og allir sendir heim til að stunda sitt leiklistarnám fyrir framan tölvuskjá. Þó að það tímabil hafi nú ekki staðið lengi yfir þá hefur námið þeirra einkennst af nálægðarmörkum, grímuskyldum og fjöldatakmörkunum. Kannski ekki kjöraðstæður fyrir nám sem leggur ríka áherslu á nánd, hlustun og stefnumót við áhorfendur. Og auðvitað var það erfitt. En þessi árgangur hefur aldeilis ekki látið það stoppa sig. Með þrautseigju, útsjónarsemi,  og með sprúðlandi sköpunarkraft að leiðarljósi hafa þessir nemendur lagt elju og metnað í öll verkefni sem þau hafa tekið þátt í og sú vinna er nú aldeilis að skila sér. Þau hafa sýnt mér undanfarin ár að þau eru hæfileikabúnt og framúrskarandi listamenn,bæði hvert fyrir sig og saman sem hópur.  Ég verð að segja að ég er gríðarlega stoltur að kynna ykkur fyrir þessu unga listafólki með þessari glæsilegu sýningu á Hamlet. 

Framtíðin er þeirra!

 

Hannes Óli Ágústsson

Fagstjóri leikarabrautar 

 

 

Útskriftarnemendur leikarabrautar 2022

 

leikarar_group-11.jpg

mynd // owen fiene

Leikarar og hlutverk:

Guðrún Kara Ingudóttir // Hamlet, flauta & bakraddir. 

Starkaður Pétursson // Kládíus, hljómborð & bakraddir

Unnur Birna J. Backman // Gertrúd, söngur, slagverk & selló

Sigurður Ingvarsson // Pólóníus, slagverk & bakraddir

Jökull Smári Jakobsson // Laertes, slagverk, bassi, trompet & bakraddir

Elín Sif Halldórsdóttir // Ófelía, söngur, kassagítar & rafmagnsgítar

Arnar Hauksson // Hóras, slagverk & bakraddir

Arnór Björnsson // Rósinkrans, söngur, slagverk, ukulele

Vigdís Halla Birgisdóttir // Gullinstjarna, söngur, slagverk, aperol glas

Jón Sigurður Gunnarsson // Ósrik, hljómborð, slagverk, bassi, kassagítar, rafmagnsgítar, munnharpa, bakraddir

 

Ávarp leikstjóra

Sagan af Hamlet hefur fylgt mannkyninu í árþúsund og hefur verið sögð á ólíkum tungumálum, í ótal myndum og mörgum menningarheimum. Svo - fyrir rúmum fjögurhundruð árum - batt leikskáldið William Shakespeare söguna niður í þétt ofinn texta sem dregur fram mannlegan breyskleika á undraverðan hátt.

Umkomuleysi, ástarþrá, sorg og söknuður verða að blóði drifinni hefnd í örvæntingarfullum ofbeldisverkum. Framvinda sögunnar ásamt persónum hennar, sambandi þeirra á milli, líðan, hugsunum, og ekki síst kunnáttuleysis við að leysa úr erfiðum tilfinningarlegum verkefnum, gera Hamlet að þeirri klassík sem verkið er.

Í gegnum þessi árþúsund sem sagan hefur verið á flakki um heiminn og þau árhundruð sem liðin eru frá fyrstu frumsýningu á verki Shakespeare hefur það sem kallað hefur verið „eðli mannsins“ ekkert breyst. Genasamsetningin er sú sama. Þörfin fyrir nánd og viðurkenningu er sú sama. Þráin að tilheyra er sú sama. Vaxtarkilyrði þessara mannlegu þátta geta þó verið breytileg. Oftar en ekki eru það einmitt líka mannlegir þættir sem gera þau skilyrði verri eða betri. Ofbeldi á það nefnilega til að leiða af sér ofbeldi. Friður elur frið.

Við segjum söguna af Hamlet aftur og aftur í þeirri veiku von að hún endurtaki sig ekki (vonandi er það ekki spoiler fyrir neinn að verkið er harmleikur og harmleikir eiga það til, því miður, að enda illa). Í leikhúsinu hittist fólk og tekur þá ákvörðun að eiga saman stund í einum og sama söguheiminum. Þar fær fólk að tilheyra. Þar getur fólk fundið nánd. Þar getur fólk lært af mistökum annara ef því sýnist svo.

Útskriftarhópur nemenda við leikarabraut LHÍ árið 2022 hefur síðustu þrjú ár sankað að sér þekkingu til að geta iðkað hæfileika sína að magna upp sammannlegar stundir. Af hugrekki og um leið mikilli auðmýkt ráðast þau á garðinn þar sem hann er hæstur. Þau bjóða ykkur, áhorfendur góðir að taka þátt og tilheyra þar sem leiksýningin Hamlet eftir William Shakespeare er sett á svið, leikgerðin er löguð að hópnum, þýðingin er gerð af Þórarni Eldjárn og hefur aldrei áður ratað á fjalir leikhússanna. Sýnt er í Samkomuhúsinu á Akureyri og í Þjóðleikhúsinu. Njótið.

Bergur Þór Ingólfsson, leikstjóri.

 

Aðstandendur:
Leikstjóri & leikgerð // Bergur Þór Ingólfsson
Verkefnastjóri // Andrea Elín Vilhjálmsdóttir
Leikmynd og búningar // Brynja Björnsdóttir
Tónskáld // Jón Sigurður Gunnarsson
Ljósahönnun // Ólafur Ágúst Stefánsson
Tæknimaður // Gunnar Sigubjörnsson
Leikmyndasmíði // Reynir Þorsteinsson & Egill Ingibergsson

Aðstoðar-búningahönnun // Guðný Margrét Magnúsdóttir

Aðstop við búninga // Fawencha Rosa  

Hvíslarar // Marge Alavere, Sóley Eva Magnúsdóttir  & Þröstur Ingvarsson.

Kennarar við útskriftarsýningu:

Raddþjálfun // Snæbjörg Sigurgeirsdóttir

Leiktúlkun // Hannes Óli Ágústsson

Hreyfþjálfun á æfingatímabili // Vala Ómarsdóttir

Sérstakar þakkir: 

Ella Björt Teague, Hafliði Arngrímsson, Vala Fannell, Inga Margrét Árnadóttir og Stefán Tryggvason, Fatasöfnun Rauða krossins, starfsfólk Þjóðleikhússins og MAK. 
Tónlist 

Lög í þeirri röð sem þau koma fyrir í sýningunni: Niður, Mundu mig, Og þó (Erlent lag, texti Þorvaldur Halldórsson), Músagildran, Upphafið á endinum, Niður, Hér hann bar sín bein, Valentínsmessa, Óráð Ófelíu, Á eftir kemur þögnin.

Aðvörun  – kveikjumerking (e. trigger warning)

Í verkinu er ofbeldi sem gæti vakið óhug og notast er við strobe ljós.

 

Sýningar:

Í Samkomuhúsinu, Leikfélagi Akureyrar

19. maí - 20:00 frumsýning

20. maí - 20:00

21. maí - 20:00

Í Kassanum, Þjóðleikhúsinu

25. maí - 20:00 

27. maí - 20:00

28. maí - 15:00 & 20:00

29. maí - 20:00

1. júní - 20:00

2. júní - 20:00

Frítt er inn á sýningar en nauðsynlegt er að bóka miða.

Miðapantanir fara fram í gegnum leikhusid.is, mak.is og tix.is.