Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands kynnir fyrirlesturinn: „Þessi litlu form”: Um Merki og form Gísla B. Björnssonar.

 
Fyrirlesturinn, sem er hluti af fyrirlestraröðinni Gestagangur í nóvember, verður haldinn fimmtudaginn 15. nóvember klukkan 12:15 í fyrirlestrarsal A, Þverholti 11 og allir eru velkomnir.

Í fyrirlestrinum mun Gísli B. Björnsson tala um og út frá bók sinni Merki og form  sem kom út síðasta sumar. Í bókinni fjallar hann um grundvallarþætti í merkja– og formfræði í sögulegu samhengi og út frá eigin reynslu varðandi viðfangsefnið og vinnubrögð. Þar dregur Gísli einnig fram margvíslegar hugmyndir og tilraunir af eigin skissublöðum, form og tákn sem hafa verið honum hugleikin og liggja að baki fjölda verka hans.

Hönnunarstarfsferill Gísla spannar yfir fimmtíu ár. Á þeim tíma hefur hann hannað yfir 400 merki, meðal annars merki fjölda stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka. Þá hefur hann einnig hannað bækur og tímarit. Gísli stofnaði og starfrækti eigin auglýsingastofu sem markaði ný spor. Árið 1962 var honum falið að stofna og stýra fyrstu deild grafískrar hönnunar á Íslandi við Myndlista– og handíðaskóla Íslands. Gísli kenndi einnig við Listaháskóla Íslands, allt til ársins 2012 þegar hann lét af kennslu.

Bókin Merki og form  verður til sölu á staðnum og í boði verður að fá áritað eintak.

--

Með Gestagangi er ætlunin að veita áhugasömum innsýn í þær rannsóknir og störf sem eiga sér stað í hönnun og arkitektúr bæði hérlendis og erlendis. Gestirnir koma víða að og munu varpa skýrri mynd á fjölbreytileika hönnunarsamfélags samtímans. Fyrirlesararnir eiga það allir sameiginlegt að vera stundakennarar eða erlendir gestakennarar við hönnunar- og arkitektúrdeild og leiðandi hönnuðir á sínu fagsviði. 

(forsíðumynd:  Viktoriia Buzukina)