Technology as a Raw Material

Sarit Youdelevich er hönnuður, hönnunar rannsakandi og fyrirlesari hjá Bezalel, Academy of Art and Design í Jerúsalem. Sarit heimsækir hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands með styrk frá Erasmus+ og mun halda fyrirlestur þriðjudaginn 10. september næstkomandi klukkan 12:15 í fyrirlestrarsal A.   
 
Sarit vinnur með gagnvirkni og tenginguna á milli stafrænnar tækni og hönnunar. Hún útskrifaðist með meistaragráðu úr ITP (Interactive Telecommunication Program) frá Háskólanum í New York (NYU) auk þess sem hún vann áður í hátækniiðnaði í Ísrael. Með aðferðum margmiðlunar, hyggst Sarit þróa framkvæmdarhugsun (Making-Thinking) og kenna hönnuðum og listamönnum aðferðir og tækni sem hún nefnir Búa til.
 
Í fyrirlestrinum mun Sarit deila sögu sinni sem „tvítyngdur“ hönnuður innan hönnunarfagsins: Hún mun skýra frá því hvernig hún nýtir tækni sem hráan efnivið og sem tæki til sjálfstjáningar og jafnframt hvaða þýðingu það hefur að kenna stafræna tækni sem tungumál.
Með Gestagangi er ætlunin að veita áhugasömum innsýn í áhugaverð verkefni og rannsóknir í hönnun og arkitektúr. Fyrirlesararnir eiga það sameiginlegt að vera stundakennarar eða erlendir gestakennarar við Hönnunar- og arkitektúrdeild. Allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa vakið athygli fyrir einstök verkefni á sviði hönnunar eða arkitektúrs og hafa látið til sín taka á alþjóðlegum vettvangi.