Föstudaginn 19. febrúar kl 13:00 mun listhópurinn Gelitin halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í beinu streymi á vegum myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Streymið má nálgast á fineart.lhi.is.

Gelitin samanstendur af fjórum myndlistarmönnum: Wolfgang Gantner, Ali Janka, Florian Reither og Tobias Urban. Þeir kynntust árið 1978 sumarbúðum og hafa starfað og sýnt saman síðan 1993. Á ferli sínum hafa þeir sýnt m.a. á Feneyjartvíæringnum, Sjanghæ-tvíæringnum, Gagosian gallerí í New York og Pompidou í París og víðar.
 
Þeir hafa vakið mikla athygli fyrir verk sín þar sem þau eiga sér ekki endilega stað né tengingar innan veggja gallería eða listastofnanna heldur oftar en ekki við veruleikann í allri sinni mynd. Verk þeirra geta verið teikningar, skúlptúrar, gjörningar, ferðalög eða eitthvað allt annað sem veruleikinn býður upp á. Líkaminn kemur þó alloft við sögu í list Gelitin og fremja þeir oft gjörninga þar sem þeir leyfa sér að leika með og teygja á hinu almenna tungumáli líkamans.
 
Gelitin segja m.a. um verk sín; “Fólk verður líkamlega ástfangið af því sem við gerum. Það er þessi “með fiðrildi í maganum” tilfinning sem við reynum að skapa í öllu því sem við gerum. En í sumum verkum okkar viljum við líka kalla fram hrylling, losta, þrá, svæsna kynferðislega girnd og aðrar jákvæðar tilfinningar. Við notum þau efni sem möguleg eru, þannig að tilvísanir okkar eru tilviljunarkenndar.”
 
thumbnail_myx.group_.jpg
 
Það er Myndlistardeild Listaháskólans mikill heiður að fá Gelitin í rafræna heimsókn þar sem þeir munu á sinn valinkunna hátt spjalla um verkefni sín undanfarin ár.
 
Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er öllum opinn. Nánari upplýsingar um Gelitin má nálgast á vefsíðu þeirra.
 
gelitin_koyama10_700.jpg