​Föstudaginn 23. mars kl. 13.00 mun Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir halda opinn fyrirlestur um verkefni sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Er þetta fyrsti fyrirlesturinn sem skipulagður er af 1. árs meistaranemum í myndlist.

Katrín Inga mun flytja performatívan fyrirlestur þar sem hún mun endurgera, ramma inn og flokka nokkra af sínum eigin gjörningum frá árinu 2008 til dagsins í dag. Undir titlinum Feeding the Vanity part 2 mun listamaðurinn/fyrirlesarinn líta á fagufræðina og þær áskoranir sem gjörningamiðillinn ber með sér og verða áhorfendur teknir í ferðalag um þennan víðtæka og tjáningarríka miðil.

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir (f. 1982) býr og starfar í Reykjavík. Á meðal viðfangsefna hennar má nefna félagslegt og pólitískt landslag með áherslu á myndlistarheiminn sem hún vinnur með á óvenjulegan og persónulegan hátt. Í gegnum ýmsar aðferðir og miðla á borð við skrif, gjörninga, teikningu og höggmyndir fjallar hún um, skorar á og verður sjálf viðfangsefni verka sinna. Hún hefur haldið einkasýningar og gjörninga á Nýlistasafninu (2013); Listasafni Íslands (2012) og Listasafni Reykjavíkur (2008). Katrín hlaut MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York (2014), BA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands (2012) og BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands (2008).

Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.