Magni Freyr Þórisson og Mattias Jose Martinez Carranza halda tónleika í tilefni af Degi íslenskrar tungu, föstudaginn 16. nóvember kl. 19:00 í Norræna húsinu.

Dagskráin er stútfull af íslenskri tónlist og lagavalið fjölbreytt. Flutt verða lög frá ýmsum tímabilum og í ólíkum stílum.

Á efnisskrá er m.a. nýtt verk eftir Birgit Djupedal við texta eftir Óskar Völundarson, auk annarrar frumsaminnar tónlistar.

Um tónlistarmennina

Magni og Matthias eru báðir í námi við Listaháskóla Íslands, þar sem þeir kynntust og byrjuðu spila saman. Þeim til halds og trausts verða Örvar Erling Árnason á trommur, Sigurlaug Björnsdóttir á flautu og Romain Denuit á píanó.

Með tónleikunum vilja þau skoða íslenskuna í gegnum tónlist með rödd þeirra sem hafa íslensku sem annað tungumál.

Tónlist er alþjóðleg leið til túlkunar og skemmtunar og getur hjálpað fólki að nálgast og læra nýtt tungumál og kynnast nýrri menningu. Mattias flutti til Íslands frá Svíþjóð og hóf nám í píanóleik við Listaháskóla Íslands haustið 2016. Hann mun tala um hvernig sönglögin tengjast lífi hans á Íslandi.

Það er frítt inn og öll hjartanlega velkomin.