Verðandi 
Tómas Óli K.M

Sýning Tómasar Óla  ,,Verðandi" opnar í Naflanum þann 30.október kl.20:00. 
 

Ég er verðandi

Ég hef líkama og persónuleika. Líkami minn er viðfang tímans og þess vegna koma upp vandamál. Persónuleikinn er sú leið sem líkaminn fer í gegnum völundarhús vandamála. Þessi vandamál eru meðal annars: Einmanaleiki, hungur, kuldi, kvíði, reiði, öfundsýki, ástarsorg, tannpína, harmur, innilokunarkennd, krabbamein, ellihrörnun, höfuðverkur, ofbeldi og eirðarleysi. 

Hugurinn er brú á milli andans (verðandi, sálar) og líkamans, hugurinn einskorðast ekki við heilann. Það er engin þörf fyrir tvíhyggju – það ríkja engin átök milli hugans og líkamans, þeir eru ekki einu sinni aðskildir. Ef enginn líkami væri, hefðum við ekki upplifun af andanum. Andinn hefur tekið sér bólfestu í líkamanum og verður fyrir miklum áhrifum af þeirri vist, en líkaminn þarf hinsvegar ekki að vera meðvitaður um andann.

Líkaminn er á vissan hátt verkfæri andans en hvað vill andinn? Að mestu leiti það sama og líkaminn en þrár hans virðast oft huldar okkur við ómeðvituð um þær. Andinn framleiðir langanir og þrár, hann er langanavél. Þessi langanaframleiðsla andans hjálpar vexti líkamans, en getur einnig komið honum um koll. Er tvíhyggja anda og líkama óþörf? Ekki jafn óþörf og tvíhyggja huga og líkama. Getur þessi tenging átt sér stað án tvíhyggju sem aðskilur huga og líkama? Hjá sumum, kannski. 

Hægt er að horfa á þríhyggju kristinnar trúar með þeim hætti að Guð sé brúin á milli andans (heilags) og líkamans (Krists). Líkaminn er hugurinn líkamnaður og hugurinn er líkami andans. Andinn er sem dúfa. Skynjanir hennar eru síkvikar og vakandi, hreyfingar örar, flug hennar er þyngdarlaus dýrðarljómi, spígspor hennar eirðarlaust. Augu hennar tóm og full af þrá, fjaðrahamur hennar flekklaus. Tilvera hennar er viðkvæm og líf hennar erfitt en hún er þrautseig. Hún svífur þöndum vængjum í átt að eilífu sólsetri. Hún er skítug og ógeðsleg, rotta háloftanna.

Persónuleiki okkar er sífelld verðandi milli okkar eigin framkomu og viðhorfa annara, verðandi á milli framtíðar og fortíðar. Kynin Kona og Karl eru ekki, þau verða í hvert skipti sem einhver uplifir þau. Ef manneskja vill hafa áhrif á það hvernig kyngervi hennar er lesið þarf hún að gera það á skilmálum kynjatvíhyggjunar eða í beinni andstöðu við hana. Kyn verður — með líkama í rými.

Röð einkasýninga myndlistarnema á BA stigi

Á tímabilinu 30. september - 2. desember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.
Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist