Á stað þar sem værð er yfir sjónum
Styrmir Hrafn Daníelsson

Sýning Styrmis Hrafns ,,Á stað þar sem værð er yfir sjónum" opnar í Huldulandi þann 30.september kl.17:00.

Ég sit á timburfleka og sker bárur í tréð. Ég móta grunnar bylgjurnar smátt og smátt, ein af annarri koma þær í ljós. Ég móta þær eftir óljósri minningu um stað þar sem sjórinn er alltaf stilltur. Allavega í minningunni. Ég móta bárurnar úr óstaðsettum minningum um sjó og rólegar öldur. Ég leyfi höndunum að vinna fyrir mig. Báru eftir báru fikra ég mig áfram. Ég helli steypu í mót. Það fyllist smám saman af þykkfljótandi efninu. Bráðum verður minningin í föstu formi. 

Sjórinn er alltaf rólegri þar.
Ég sit á timburfleka og sker í tréð.
Báru fyrir báru 
fikra ég mig áfram,
Gáru af gáru.
Minning verður áþreifanleg.

Röð einkasýninga myndlistarnema á BA stigi

Á tímabilinu 30. september - 2. desember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.
Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist