Einkasýning Sölva Steins Þórhallssonar opnar fimmtudaginn 10.október kl. 17:00 – 19:00 í Naflanum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Smásögur Sör Vals

Í verkum mínum hef ég verið að vinna með minningar og frásagnir. Sýningin „Smásögur Sör Vals” reynir að endurskapa heim minninga minna með málverkum og innsetningu. Sum verkin eru opin og bjóða áhorfendum að hlusta á sögu sína en önnur eru lokaðri og óaðgengilegri eins og leyndarmál. Ég vonast til þess að fólk staldri við, hlusti á sögu verkanna og jafnvel búi til sínar eigin.

Afi og rauði bolinn

Prakkarasvipurinn þvæst ekki af þótt þú spreyir hann með Ajaxi og gefur honum nokkrar róandi. Afi klifrar yfir grindverkið með öldugang í maganum. Hvort hann stafar af spennu, hræðslu eða hvoru tveggja veit afi ekki. Hann stígur varlega niður til jarðar á mjúku túninu.
Risa stór horn og rauð risa bumba. Nasavængirnir þenntir út og augun gulleit með eldboltum fyrir miðju. Afi skilur ekki lengur hvað maginn hans segir en eins og gegn vilja hans brýst tungan út.

„Ull á þig!”

Við þetta þýtur bolinn af stað og í áttina að afa. Hornin skera loftið eins og geislasverð í gegnum vélmenni. Með sperrtan rassinn hleypur afi eins hratt og hann getur í leit að skjóli. Hann finnur fyrir þungum andardrætti bolans streyma yfir sig eins og gufa en nær á síðustu stundu að grípa í grein og klifra upp í tré.

„BAMM!”

Ég sit á stól í safnaðarheimili sálarfélagsins í Kópavoginum, horfi á ljósan punkt á veggnum og hlusta á frænku mína segja söguna um afa og rauða bolann. Síðan teikna ég mynd af afa sitjandi uppi í grein og af nautinu fyrir neðan, bandbrjálað, slefandi og með hornin föst í trénu.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 3. október - 21. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook event / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist