Einkasýning Sigrúnar Ernu Sigurðardóttur, Garðurinn okkar opnar fimmtudaginn 18. október kl. 17:00 – 19:00 í Naflanum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Það er haust úti og veturinn kallar. Lauf falla og kúra í kaldri jörðinni, sólin kíkir í styttri heimsóknir. Silkiskínandi Mánasjóður sýnir þokka sinn í dansspori með vindinum. Himininn er stöðugt að breytast úr einum bláum tón yfir í annan, dökkblá nóttin heilsar.

Verkin skapast með sólarljósi, með verkunum flyt ég birtu inn í gluggalaust rými en þar er gott skjól fyrir veðri og vindum. Með cyanotype aðferðinni er ljósmynd framkölluð með birtu, hún festir viðfangsefni sitt á blaðið og geymir útlínur þess.

Mánasjóður. Plantan hefur alla tíð verið partur af lífi mínu, frá því að amma mín kynnti hana fyrir mér hef ég tengt plöntuna við hana. Hún ræktar plöntuna í garðinum sínum sem eitt sinn var garðurinn okkar.
Heimkynni plöntunnar hennar er í löngu beði sem er staðsett beint fyrir utan lítinn glugga. Hún teygir hendurnar út um gluggan og kastar ferskum fræjum niður í beðið og tryggir sér nýja uppskeru. Húsið veitir plöntunni gott skjól og birtu til að vaxa ár hvert í garðinum.
Inni í húsi má sjá Mánasjóð í öllum hornum, silkibeinagrind plöntunnar prýðir fallega vasa í ýmsum hornum. Mánasjóður laðar að sér fjársjóð, sé plantan höfð í horni. Húsið er lokahvíldarstaður plöntunnar, upphafið og endinn.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 4. október - 29. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð, í Kubbnum á annari hæð og síðast en ekki síst í Huldulandi norðanmegin í húsinu á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum. Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Heklu Daggar Jónsdóttur. Kennarar ásamt Heklu eru Unnar Örn og Sindri Leifsson.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist