Þangað sem vindinn ber
Sara Björk Hauksdóttir

Sýning Söru Bjarkar ,,Þangað sem vindinn ber" opnar í Kubbnum þann 30.september kl.17:00.

Í einkasýningunni Þangað sem vindinn ber, beinir Sara sjónum að breytingum. Með vindinn sem samstarfsaðila er hversdagslegt umhverfi skoðað með augum gjörhyglinnar. Breytingar bera að með ólíkum hætti. Sumar þeirra, eins og hörfun jökla eða uppgufun stöðuvatna, gerast hægar en svo að skynjun okkar nemi. Hún nær yfir tímalínur sem eru lengri en mannslíf. Vindurinn er aftur á móti kvikur og felur ekki hreyfingar sínar. En þar sem hreyfingar hans eru flestum hversdagslegar, hverfa þær okkur sjónum líkt og hinar hægu hreyfingar náttúrunnar. Við veitum þeim ekki athygli. Í hreyfingum vindsins leynist leikur og fegurð. Hann grípur um hár okkar og gælir við náttúrunnar gróður, líkt og foreldri sem fer mjúkum höndum um hár barns. Kraftar hans móta form úr þeim efniviði sem hann finnur. Form úr efni sem hann færir til -og tóminu sem hann skilur eftir. Vindurinn er villtur og lætur ekki að stjórn. Í meðbyr vindsins er kjörið að gefa eftir og sjá hvert leið okkar liggur. Reka þangað sem vindinn ber.

Röð einkasýninga myndlistarnema á BA stigi

Á tímabilinu 30. september - 2. desember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.
Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.

Facebook viðburður Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist