Einkasýning Rakelar Andrésdóttur opnar fimmtudaginn 24. október kl. 17:00 – 19:00 í Huldulandi, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Augnasamband; Uppstilling hugsana

Uppstillingar í söfnum voru leið til þess að færa fólk nær einhverju sem það hafði ekki aðgang að. Með þessari uppstillingu býð ég áhorfendum að skyggnast inn í innri heim. Ég hleypi fólki inn en ekki of nálægt. Aðgangur að verkinu er takmarkaður, maður fær innsýn inn í heiminn en má ekki dvelja þar of lengi. Heimurinn er hulinn.

Birtingarmynd innra lífsins er brotakennd. Viðfangsefni myndarinnar sem birtist flakkar á milli raunveruleika og fantasíu. Sögugerð og athöfnin við að búa til frásögn skiptir miklu máli í þessum heimi. Persónur verksins blandast saman og verður oft þunn lína á milli þess saklausa og óhugnalega. Hlutum er stillt upp og leikið er með samband þeirra.

Ég þróa þennan ímyndaða heim og persónurnar sem búa í honum og máta við sjálfan mig og mínar upplifanir á samböndum við aðra. Sálræn áhrif frá samböndum við fólk er skoðað með barnslegri tjáningu þar sem notaðar eru grímur og ýmiskonar leikir. Rýmið er gert til þess að skoða það sálræna og huglæga. Rými til þess að skilja hugsanir.

Leikendur í verki 2. árs nemar við samtímadansbraut LHÍ:

Bjartey Elín Hauksdóttir
Júlía Hrafnsdóttir
Júlía Kolbrún Sigurðardóttir
Sanna Hirvonen

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 3. október - 21. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburðurAllar einkasýningar 3. árs nema í myndlist