Einkasýning Ragnheiðar Guðmundsdóttur opnar föstudaginn 22. febrúar kl. 16:00 – 18:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga MA útskriftarnema við meistaranám myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.

Skynjandi líkami
Ragnheiður Guðmundsdóttir
 
Opnunartími: 27., 28. febrúar og 1. mars kl. 13:00 – 17:00

 

Í ferðalagi um óvissuslóðir fylgi ég innsæinu og treysti á það við næstu skref. Það ókunna  birtist í skynheimi tilveru minnar. Minnið sem liggur í landinu hefur mismunandi birtingarmyndir. Þær vekja upp sterkar tilfinningar og spurningar um hvar mörkin liggja á milli annarsvegar ímyndunar hugans og þess sem hann varpar fram og hinsvegar þeim upplifunum sem líkaminn skynjar en ekki er hægt að henda reiður á. Er nauðsynlegt að takast á við það sem við hræðumst – að fara á vit þess óþekkta til að komast í snertingu við fegurðina? Liggur ógn í hjarta fegurðarinnar -  hinni eilífu umbreytingu náttúrunnar? 

Innra ferðalag er mikilvægur þáttur í listsköpun minni, tilraun til að skilja samhengi hlutanna, samband líkama og náttúru, efnis og anda, fæðingar og dauða. Ég leitast einnig við að finna staði þar sem ég get dvalið um stund, þorp, jarðir eða hús, hlusta á innsæið og skynja orku þeirra sem þar voru. Það getur verið erfitt að átta sig á því hvar eða hvernig skynjunin byrjar, hvort það er ímyndunaraflið sem er að verki eða það ósýnilega sem verður aðeins skynjað í gegnum líkamann? Kannski er þetta samofið. Ferðalagið getur verið spennandi þegar takinu er sleppt, þó það sé ekki nema eitt augnablik. Þessar upplifanir verða síðan að verkfæri til listsköpunar. Staðhættir eða sagan á bak við verkið eru ekki aðalatriðið í innsetningunni heldur það að kalla fram upplifun og skynjun í gegnum áferð og líkamleika.

Verkið Skynjandi líkami  fjallar um ferðalag, að treysta innsæinu og sjá hvert það leiðir án þess að vera búin að skipuleggja næstu skref fyrirfram. Könnunarleiðangur um landslag og staði, þar sem opnað er fyrir andlega og líkamlega upplifun. Fortíð og nútíð mætast í augnabliki þar sem tíminn verður afstæður. Líkaminn skynjar anda fortíðarinnar. Minni sem sest hafa að í landslagi, á jörðum eða í húsarústum. Hefur andi þeirra sem þar hafa dvalið líkamnast í efni staðarins?

Ragnheiður Guðmundsdóttir lauk BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2000, stundaði nám í heildrænum lækningum árin 2008-2011 og lýkur meistaranámi í myndlist vorið 2019.

Allar einkasýningar MA nema | Facebook viðburður