Einkasýning Nínu Kristínar Guðmundsdóttur opnar fimmtudaginn 25. október kl. 17:00 – 19:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aldrei aftur verða

Sjálfskipaður sigurvegari náttúruvalsins. Eignarréttur í verðlaun. Maðurinn á toppi hins manngerða valdapíramída sem spratt út frá óttanum við dauðann. Óttanum við að deyja, að gleymast, að skilja ekkert eftir sig og að allt verði tilgangslaust þegar líður að lokum. Við leitumst eftir tilgangi, reynum að stuðla að betri heimi og að sjálfsögðu höfum við burði til þess, með yfirsýn yfir allt frá toppnum, er það ekki? Í ljósi stigveldisins; hvernig speglar maðurinn sig í samskiptum við umhverfi sitt og aðrar tegundir, verandi aðeins ein tegund og óumflýjanlega skilyrt sem slík?

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 4. október - 29. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð, í Kubbnum á annari hæð og síðast en ekki síst í Huldulandi norðanmegin í húsinu á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum. Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Heklu Daggar Jónsdóttur. Kennarar ásamt Heklu eru Unnar Örn og Sindri Leifsson.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist