Einkasýning Maríu Rúnar Þrándardóttur opnar fimmtudaginn 15. nóvember kl. 17:00 – 19:00 í Huldulandi, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Allt sem ég skrifa í snjóinn

Hringur , (H), er mengi þeirra punkta í plani sem eru í tiltekinni fjarlægð frá gefnum punkti, (p). Ég skrifa hann í snjóinn. Ummál hrings er 2r*π en flatarmál hrings er π*r^2. Ég man ekki hvernig rúmmál kúlu er reiknað svo ég ætla ekki að skrifa það í snjóinn. Mér verður ekki kalt ef ég held mér á hreyfingu, sný hjóli atvinnulífsins og skrifa í snjóinn.

Þann 6. október 2018 var loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna gefin út. Í henni voru áhrif 1,5°C og 2,0°C hækkunar meðalhita frá upphafi iðnbyltingar borin saman, með  tilliti til vistfræði, veðurfars og lífríkis á jörðinni. Ég skrifa hana í snjóinn. Ég þýði valda hluta skýrslunnar sem ætluð er einhverjum valdameiri en mér og skrifa í snjóinn.

Sólin og ég og árið 2030: punkta það hjá mér og skrifa í snjóinn. Ef ég skrifa þig í snjóinn, gæti sólin brætt þig á morgun. (H) er allt sem er og allt sem ég skrifa í snjóinn.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 4. október - 29. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð, í Kubbnum á annari hæð og síðast en ekki síst í Huldulandi norðanmegin í húsinu á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum. Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Heklu Daggar Jónsdóttur. Kennarar ásamt Heklu eru Unnar Örn og Sindri Leifsson.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist