Einkasýning Maríu Hrönn Gunnarsdóttur opnar laugardaginn 9. mars kl. 14:00 – 16:00 í RÝMD, Völvufelli 13-21. Sýningin er í röð einkasýninga MA útskriftarnema við meistaranám myndlistardeildar Listaháskóla Íslands.

Ok mitt er sætt ok byrði mín er létt
María Hrönn Gunnarsdóttir 
 
Opnunartími: 10., 13., og 15. mars kl. 14:00 - 18:00

 

Prismar fangar ljósið og deilir litunum á reiti slönguspils lífsins. Teningur leiksins hefur sex jafngilda fleti, stigi liggur upp, slanga liðast niður. Spilamennskan er hendingum háð. Horfðu ekki með augunum heldur með innyflunum, andardrættinum, boðefnunum og finndu létt sætubragðið af sársaukanum renna á tungunni. 

Í myndlist minni rannsaka ég hvernig þrengingar og áföll í lífinu verða að uppsprettu skapandi krafta og leiks. Ég leita fanga víða, róta í minningum, les orðabækur og lotukerfið og reyni að grípa svipmyndir, sem sækja á þunnt eyrað um miðjar nætur. 

Innsetningin Ok mitt er sætt ok byrði mín er létt er innblásin af hugrenningum sem kvikna þegar rökhugsun liggur í dvala svefnsins en ímyndunarafl fer í kreik. Lotukerfið geymir fróðleik tilvistarinnar í tölum og táknum. Kolefnið er númer sex. Það er allt um kring og getur myndað milljónir efnasambanda ýmist við sjálft sig eða önnur efni. Kolefni eru myndhvörf um hnýsni lífsandans, að eilífu á höttunum eftir nýjum tengslum. 

María Hrönn lauk BA prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands vorið 2005 og diplómaprófi í keramik frá Myndlistaskólanum í Reykjavík 2016. Hún er einnig með kandidatspróf í lyfjafræði frá Háskóla Íslands. Sem stendur stundar hún meistaranám í myndlist við Listaháskóla Íslands. 

Allar einkasýningar MA nema | Facebook viðburður