Einkasýning MARA opnar 30 nóvember kl. 17:00 – 18:00 í Kubburinn, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

ATH vegna núverandi ástands verður sýningin aðeins aðgengileg almenningi í gegnum beint streymi á vefnum kl. 17:15 sem nálgast má HÉR.

MARA

Óvættur, óvinur, MÖRU hún móðir mín erfði. Sakleysi barns með hvorki val né völd. Yfir sambýli líkama hennar og huga, drottnaði skuggaleg vera.  Með árum og aldri í sál hennar logaði bál sem engan enda fundið gat. Áföll örmögnun og þreyta, MARA logann smá saman kæfði. Að lokum tók hún mömmu með sér og til Valhallar hún fallega sveif. Mara þá opnaði gamminn og gleypti mig í staðinn alveg um leið.

 Nú sem erfingi MÖRU ég við kyndlinum tók. Með líkamlegri og andlegri örmögnun er erfitt að halda heilsu. Því á undirstöður sem sífellt veikjast koma mörg ör og opin sár, þjáð sálin að brotna, styrjöldum veikinda orðin að bráð. En þegar móðurinni sleppti og dótturina hreppti  Þá vissi MARA ekki gegn hverri hún stóð.

Gegn rúgi eða osti, sól eða lofti. Með skildi mínum ég verst en margir eru þeir orðnir Pyrrhosarsigrarnir. Hnefar mínir kreftir MARA sífellt með sverði sínu heggur. Að lokum verður ekkert eftir og þar með er ég seinasti leggur.

Í sýningunni MARA er kafað inn í sálartetrið á sjálfinu í leit að sætti við sjálfsmyndina og líkama. Verkin sem hér birtast vísa í Keltíska heiðna þrenningu sem hafa ýmsar merkingar svo sem fortíð, nútíð, framtíð. Sköpun, varðveisla og eyðilegging. Hugsun, líðan og tilfinning, annar heimur, dauðlegur heimur og himneskur heimur. Líkami, hugur, andi og að einhverju leiti þá er ég að vinna með allar þessar hliðar sjúkdóms sem hefur hrjáð mig alla ævi en er ný greindur.

Ég hef verið að leitast eftir einhverskonar sætti við sjálfið og hvernig sjálfið kemur mér og öðrum fyrir sjónir í aðskildum og brostnum myndum.  Á striganum eru þrjár konur með hug, líkama og sál. Hvað var, hvað er, hvað hefði getað orðið. Hvað sé ég í speglinum þegar horft er til baka eða hvernig upplifi ég líkamlegu eða andlegu hliðar sjálfs míns sem veruleika eða sjúkdóm.

Hvernig næst sætti við sjálfið þegar líkaminn er ekki lengur ein heild heldur líkami, sál og hugur. Fótur ekki lengur tengdur búk og hugur er ekki tengdur líkama. Búkurinn af hausaður frá veruleikanum, veruleika sem áður var skilgreindur sem móðursýki og ofurviðkvæmni.

Hvernig sérð þú mig, hvernig sé ég mig?

Á tímabilinu 1. október - 26. nóvember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Í hverri viku opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist