Birtan hérna inni er svo góð fyrir þær, plönturnar
Laufey Björnsdóttir

Sýning Laufeyjar Björnsdóttur ,,Birtan hérna inni er svo góð fyrir þær, plönturnar" opnar í Huldulandi þann 14.október kl.17:00.

Ég kem inn í rými sem er fullt af persónulegri orku íbúans. Það endurspeglast í vali á hlutum, litum, efni og sýnilegri notkun rýmisins. Hvað hefur tilfinningalegt gildi í rýminu? Hvað hefur hefur verið hlaðið með ást og umhyggju? Manneskja hefur sett svip sinn á þetta herbergi. Þetta eru allt merki um manneskjuna og hver hún er. För eftir hana sem leyfa mér að kynnast henni örlítið eða að minnsta kosti að ímynda mér hana. Þegar ég skoða rýmin líður mér eins og ég sé að eiga lítið spjall við íbúann. Gólfið í rýminu skiptist í tvennt. Annars vegar eru gráar flísar og hins vegar er brúnt og hlýlegt parket. Á brúna hlýlega parketinu er svartur sófi og brúnn viðarskápur. Ofan á honum er planta. Við hliðina á viðarskápnum er brúnn viðarstallur og ofan á honum stendur önnur planta. Fyrir aftan sófann stendur planta. Í gluggakistunni er planta. Á partinum sem er flísalagður eru nokkrar plöntur, sex plöntur nánar tiltekið og líka borð. Viðarborð, brúnt. Allar plöntunar líta vel út og augljóst að þeim hefur verið sinnt af ást og umhyggju. Ljós hangir niður úr loftinu en það sést eiginlega ekki þar sem plönturnar taka mestalla athyglina. Hurð og gluggi eru á einum veggnum. Hurðin er svalahurð og ágætis útsýni er af þeim. Sólin mætir á svalirnar um klukkan tvö og helst þar þangað til hún fer niður fyrir blokkina á móti. Ég á eftir að sakna birtunnar hérna inni, segir hún. Hún er góð fyrir þær, plönturnar mínar.

Röð einkasýninga myndlistarnema á BA stigi

Á tímabilinu 30. september - 2. desember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.
Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.

Facebook viðburður Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist