Stöpullinn ég

Klemens Nikulásson Hannigan
 
Sýningin opnar í Kubbnum þann 25. nóvember kl. 17:00 - 19:00
 
Skilgreiningin á stöpli: strúktúr sem er notaður til sýningar á listmunum. Stöpullinn kemur í mismunandi stærð, lögun og birtingarmynd eftir því sem listaverkið krefst af honum. Stöpullinn er hugsaður til að upphefja og aftengja listaverkið frá nánasta umhverfi. Hann er skapaður til að þjóna listaverkinu algjörlega. Stöpullinn gerir áhorfandanum kleift að skilgreina sýningargripinn sem list og manneskjuna sem listamann. Að slá réttan tón fyrir umhverfið svo að listin fái að tala sínu máli og gefur listaverkinu sinn hátíðlega stall. 
Listamaðurinn er bundinn stöplinum rétt eins og stöpullinn er bundinn listamanninum.
 
Hvað er það að vera listamaður? Hver skilgreinir listamann? Er það listamaðurinn sjálfur eða er það á herðum áhorfandans? Ímyndarsköpun er marglaga. Að hluta til er ímynd sköpuð þegar listamaðurinn leggur verkið á stallinn en útkoman mótast hjá áhorfandanum. Stöpullinn er alltaf til staðar.
 
Röð einkasýninga myndlistarnema á BA stigi
Á tímabilinu 30. september - 25. nóvember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.
Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.