Einkasýning Hildar Elísu Jónsdóttur opnar fimmtudaginn 4. Október 2018 kl. 17:00 – 19:00 í Naflanum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Einn kemur þá annar fer, og allir ríða þeir skjótt um

Það sem hefur verið gert getur verið gert aftur, en vegna þess að það hefur verið verður endurtekningin að einhverju öðru og nýju.

Fyrir einhverjum árum lenti ég á spjalli við nokkrar konur á níræðisaldri. Við ræddum um ýmislegt en þegar við höfðum rætt um ástina og tilhugalífið nokkra stund hnippti ein þeirra í mig og spurði mig hvort ég ætti mann. Ég neita því. „En áttu þá ekki kærasta?“. Ég maldaði eitthvað í móinn og var ekki alveg viss hvernig best væri að svara, sagði þó á endanum að ég hefði átt þá nokkra en að enginn þeirra hefði haldist til lengri tíma. Hún hló að vandræðaganginum í mér og bað mig að vera ekkert að hafa áhyggjur af því, glotti svo við og sagði: ,,Einn kemur þá annar fer, og allir ríða þeir skjóttum“.

Endurtekningin í sjálfri sér er auðveld. Sú upplifun sem er endurtekin hefur verið – annars gæti hún ekki verið endurtekin – en einmitt vegna þess að hún hefur verið verður endurtekningin að einhverju öðru og nýju.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 4. október - 29. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð, í Kubbnum á annari hæð og síðast en ekki síst í Huldulandi norðanmegin í húsinu á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum. Einkasýningar nemenda er liður í námskeiðinu Vinnustofur prófessora í umsjón Heklu Daggar Jónsdóttur. Kennarar ásamt Heklu eru Unnar Örn og Sindri Leifsson.

Facebook viðburðurAllar einkasýningar 3. árs nema í myndlist