Einkasýning Héðins Péturs opnar fimmtudaginn 17. október kl. 17:00 – 19:00 í Kubbnum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

2441111-1=eitthvað1

Mér var sagt að ég gæti orðið hvað sem er en ég gæti þó bara orðið eitt. Með hverju andartaki fækkaði möguleikum mínum um einn og ég færðist nær því að verða eitthvað eitt. Í hvert sinn sem ég gerði skyssu yrði ekki aftur snúið. Möguleikunum fækkaði á meðan villunum fjölgaði.

Skúlptúrinn stendur ávalt fyrir sínu. Hann er það sem hann er og allt það sem hann getur orðið. Með hverju höggi hamarsins fækkar möguleikunum og hann færist nær því að verða eitthvað eitt. Í hvert sinn sem ég geri skyssu er ekki aftur snúið. Möguleikunum fækkar á meðan villunum fjölgar.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 3. október - 21. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist