Einkasýning Daníels Ágústar opnar fimmtudaginn 17. október kl. 17:00 – 19:00 í Naflanum, Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Þanþol

Grundvallar þáttur í þróun mannkynsins er þráhyggja okkar til að skilja heiminn. Allri óvissu fylgja ákveðin óþægindi en við skilning á fyrirbæri verður það sem sannleikur. Skilningur er þó háður skilningsleysi. En hvað þarf mikið til þess að ýta hlut tilbaka yfir í skilningsleysið?  

Verkið Þanþol reynir á þekkingu áhorfandans á umhverfi sínu og tilgang hluta. Tekin er fyrir sú þunna lína á milli skilnings og skilnigsleysis og skoðað er hversu mikla þenslu þekking þolir áður en hugmynd okkar um hluti breytist?

Markmið verksins er að vinna með rýminu frekar en í því. Eiginleikar sýningarýmisins, eða svo kallaðs white cube, eru teknir fyrir og umbreyttir. Hvítu veggirnir verða að tómi og lýsingin tekur sviðsljósið. Með innsetningunni verður rýmið sjálft og eiginleikar þess að verkinu. Án rýmisins er hluturinn samhengislaus og einungis við komu hans inn í rýmið öðlast innsetningin sitt samhengi og nýjan tilgang.

Áhorfendum er boðið inn í þessa upplifun þar sem hver og einn getur fyllt upp í eyðurnar með sinni reynslu og þekkingu.

Á tímabilinu 4. október - 29. nóvember stendur yfir röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.

Á hverjum fimmtudegi frá 3. október - 21. nóvember opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð. Opnanir eru frá kl. 17 - 19 á fimmtudögum.

Facebook viðburður / Allar einkasýningar 3. árs nema í myndlist