Komdu nær, en ekki alveg svona nálægt 

Andrea Valgerður Jónsdóttir
 
Sýning Andreu ,,Komdu nær, en ekki alveg svona nálægt ​"  opnar í Kubbnum þann 11. nóvember kl. 17:00
 
Ég skrifa á blaðsíður á hverjum einasta degi. 
Kannski skrifa ég svo ég þurfi ekki að tala. 
Samt langar mig að öskra fram af kletti mínar dýpstu sálar þrár 
og líka kannski nafnið á síðastu hjásvæfu. 
 
Hæ, má ég hringja í þig bráðum? 
Mig langar að segja þér slúður um sjálfa mig. 
 
Hver nennir svo sem að hlusta á mig? 
Ég plata heilann til að trúa að bókin sé manneskja sem hlustar á mig skrifa. 
Hún fær að vita allt sem er ósagt og þörfinni til þess að deila er þannig uppfyllt. 
 
Ég hugsa um það hvernig manneskjan þróaðist til þess að sjá rauðan þegar hún leitaði að ávöxtum milli grænna laufa og þegar hún horfði á roðann í andlitum náunga sinna. 
Rauður er lífsþol og tengslamyndun.
 
Mig langar að segja öllum leyndarmálin mín svo ég pósta þeim á instagram. 
En það gera líka allir. 
Hvað ef það eru ekki einu sinni til nein leyndarmál lengur? 
 
Málningarlög veggjana eru blaðsíður í bók. 
Bráðum mála ég yfir þetta allt og loka bókinni. 
 
Röð einkasýninga myndlistarnema á BA stigi
Á tímabilinu 30. september - 2. desember stendur yfir röð einkasýninga BA nemenda á 3. ári í myndlist, alls 24 sýningar.
Á hverjum fimmtudegi opna í senn þrjár einkasýningar á mismunandi sýningarstöðum í Listaháskólanum í Laugarnesi; í Kubbnum á 2. hæð, í Naflanum sem er inni í miðju skólans á 1. hæð og í Huldulandi sem staðsett er norðanmegin á 1. hæð.