EDDA ERLENDSDÓTTIR PÍANÓLEIKARI KYNNIR FRANSKA TÓNSKÁLDIÐ HENRI DUTILLEUX OG FLYTUR EFTIR HANN ÞRJÁR PRELÚDÍUR 

Henri DUTILLEUX (1916-2013) er eitt helsta og virtasta tónskáld frakka á 20. öld. Hann lést 2013, 97 ára gamall og samdi tónlist fram á síðasta dag. Hann átti aldarafmæli þ. 22 janúar 2016 og í sömu viku flutti Edda Erlendsdóttir Þrjár Prelúdíur eftir hann á Myrkum Músikdögum. Var það frumflutningur á verkinu á Íslandi.

Dutilleux tilheyrði engum sérstökum skóla. Þau tónskáld sem höfðu helst áhrif á hann eru helst Debussy, Ravel, Roussel, Stravinsky og Bartok. Ljóðræna og fínleiki einkenna verk hans og er tónheimur hans er mjög persónulegur. Hann fór sínar leiðir í atónal tónlist og fór lítið fyrir áhrifum frá rað og módaltónlist.

Dutilleux samdi Þrjár Prelúdíur fyrir píanó á árunum 1973-1988. Í þessum verkum spilar hann á möguleika hljóðfærisins til hins ýtrasta. Allt hljómborðið fær hlutverk í sterkum andstæðum tóna og styrkleika, þar sem brotnir hljómar renna glitrandi upp og niður í öllum regnbogans litum. 
Lykilnótur og endurteknir hljómar í ýmiskonar tilbrigðum og spegilmyndum ganga eins og rauður þráður í gegnum verkið og litróf pedalsins tengir allt saman. 

Prelúdía nr.1 Skuggar og þögn, Prelúdía nr.2. Á sama hljómi, Prelúdía nr.3 Leikið með andstæður.

EDDA ERLENDSDÓTTIR hefur um langt árabil verið í fremstu röð íslenskra hljóðfæraleikara. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan bæði einleikaraprófi og píanókennaraprófi. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólann í París og lauk þaðan prófi 1978. Hún var árið 1990 valin fulltrúi Menuhin stofnunarinnar.

Edda hefur verið búsett í París síðan 1973 þar sem hún hefur kennt og starfað, m.a. við Tónlistarháskólann í Lyon og Tónlistarskólann í Versölum. Hún fær reglulega boð um að vera í dómnefnd í alþjóðlegum píanókeppnum og hefur víða haldið masterklassa. 
Ásamt kennslu hefur Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum m.a. á Íslandi, Frakklandi,Skandinavíu, Englandi, Belgíu, Þýskalandi, Spáni, Sviss, Ítalíu, Rússlandi, Lettlandi, Úkraínu, Bandaríkjunum og í Kína. 

Edda tekur ríkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi m.a. á Myrkum Músikdögum, hjá Kammermúsikklúbbnum, í Salnum, á Listahátíð í Reykjavík, á Tíbrá tónleikum og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 2011 hélt hún einleikstónleika í Hörpu á Listahátíð í Reykjavík og vígði um leið nýjan Steinway flygil í Kaldalóni.

Efnisskrár hennar spanna fyrstu verkin skrifuð fyrir fortepíanó (C.P.E.Bach) allt til samtímatónlistar og hafa vakið athygli fyrir frumleika. Hún fumflutti m.a. á Íslandi Þrjár Prelúdíur eftir Henri Dutilleux og Sónötu nr 1 eftir Pierre Boulez (Myrkir Músikdagar) og Kammerkonsert fyrir fiðlu, píanó og 13 blásara eftir Alban Berg með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur verið ötull flytjandi íslenskrar tónlistar erlendis og hafa íslensk tónskáld samið fyrir hana. Hún frumflutti tvö ný íslensk verk á Myrkum Músikdögum í janúar 2016.

Edda hefur verið virkur þátttakandi í kammertónlist. Hún átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi í 15 ár. Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó.
Hún hefur átt farsælt samstarf með mörgum af fremstu tónlistarmönnum landsins og ber þar helst að nefna Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara en diskur þeirra með verkum eftir Kodaly, Martinu, Janacek og Enescu hlaut árið 2005 Íslensku Tónlistarverðlaunin.

Edda hefur gert fjölda upptökur bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp, m.a. fyrir þáttinn "Tíu fingur" sem sýndur var í íslenska ríkissjónvarpinu.
Hún hefur gefið út diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach, Grieg, Haydn, og Tchaikovksky Schubert, Liszt, Schönberg og Berg sem hlotið hafa viðurkenningu og lof gagnrýnenda. Diskur hennar með 4 píanókonsertum eftir Haydn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2010.

Edda Erlendsdóttir var þ. 17. júní 2010. sæmd Íslensku Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til tónlistar. 
Hún starfar sem gestakennari við Listaháskóla Íslands

vefsíða: http://edda.erlendsdottir.free.fr/