Miðvikudaginn 16.maí næstkomandi klukkan 18:00 verða útskriftartónleikar Brynjars Friðriks Péturssonar haldnir í Salnum í Kópavogi. Í vor mun hann útskrifast með B.mus gráðu í hljóðfæraleik. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og öllum er velkomið að mæta.

Á tónleikunum mun Brynjar leika Fantasiu eftir Francesco da Milano, Lútusvítu í e-moll, BWV 996 eftir J.S. Bach, Gran sonata eroica eftir Mauro Giuliani, Granada og Sevilla eftir Isaac Albéniz og Jakobsstigann eftir Hafliða Hallgrímsson.

Brynjar Friðrik Pétursson fæddist árið 1995 á Húsavík. Hann hóf nám við Tónlistarskólann á Húsavík í klassískum gítarleik átta ára gamall og lauk þar miðprófi. Eftir miðpróf færði hann sig um set til Akureyrar þar sem hann lauk framhaldsprófi við Tónlistarskólann á Akureyri árið 2015. Um haustið sama ár hóf hann nám við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem klassíski gítarinn hefur verið hans aðalfag. Pétur Jónasson og Svanur Vilbergsson hafa verið gítarkennarar hans í Listaháskólanum en ásamt því hefur Brynjar sótt hóptíma hjá Arnaldi Arnarsyni, Tomás Campos og fleirum. 

Ljósmynd: Leifur Wilberg