Á sumardaginn fyrsta sýna myndlistar- og hönnunarnemar við Listaháskóla Íslands ásamt ritlistarnemendum við Háskóla Íslands bókverk í lestrarsal Safnahússins. Sýningin stendur yfir milli kl. 13 og 16:30.

Verkin eru afrakstur tveggja námskeiða þar sem unnið var að gerð texta og mynda af fjölbreyttu tagi ásamt því að kanna snertifleti mynd- og ritmáls.

Á námskeiðinu MyndMál er efnt til samstarfs milli myndlistar- og hönnunarnema við Listaháskóla Íslands og ritlistarnema við Háskóla Íslands. Unnið er að gerð texta og mynda af hvaða tagi sem er og snertifletir mynd- og ritmáls kannaðir. Í tímum er boðið upp á æfingar sem hreyfa við hugsun og geta nýst sem kveikjur að skrifum og gerð alls kyns verka. Þátttakendur þurfa að vera tilbúnir að deila verkum sínum með hinum, vinna samvinnuverkefni á milli listgreina og vera virkir í þeim umræðum sem skapast. Í lok námskeiðs vinna nemendur saman í pörum að bókverki, annað úr LHÍ og hitt úr HÍ. Nemendur myndlistardeildar sem sýna bókverk eru: Clara Sindal Mosconi, Daniel Ágúst Ágústsson, Diana Bonet, Esther Grüne, Florine Marie-Sophie Imo, Jenny Hviding, Jóhanna Margrétardóttir, Katrina Jane Perry, Luke van Gelderen, Purya Alimirzaee og Xin Ali-Rekola.

Á 3. hæð Safnahússins er einnig sýning á bókverkum úr safneign Landsbókasafns Íslands, þar sem dregin eru fram áhugaverð dæmi um skapandi prentverk, bókband og tilraunir með form bókarinnar allt aftur til loka 19. aldar og fram til dagsins í dag.

Facebook viðburður