Jafnræði og virðing skal ríkja í öllum samskiptum í Listaháskóla Íslands. Tjáningarfrelsi er virt og skoðanaskiptum er hagað á málefnalegan og ábyrgan hátt. Starfsfólk og nemendur leggja metnað sinn í áreiðanleg vinnubrögð og bera umhyggju og virðingu fyrir vinnu og tíma hvers annars.

Einelti eða önnur áreitni verður ekki umborin undir neinum kringumstæðum.

Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (46/1980) er ætlað að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi og fellur einelti þar undir.

Markmið

Markmið þessarar áætlunar er að tryggja að úrræði séu til staðar fyrir aðila sem telja sig hafa orðið fyrir því að á þeim sé brotið.

Tilgreind brot eru hvorki liðin í samskiptum starfsfólks og nemenda, meðal starfsfólks eða nemenda innbyrðis, né heldur í samskiptum starfsmanna eða nemenda LHÍ við einstaklinga utan Listaháskólans enda eigi samskiptin sér stað í tengslum við starfsemi LHÍ.

Skilgreining

Einelti er skilgreint samkvæmt reglugerð 1009/2015: „Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.“

Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir vegna þess að slíkt telst hvorki viðvarandi né endurtekið kerfisbundið.

Dæmi um birtingarmyndir:

 • ítrekuð ómálefnaleg gagnrýni
 • niðurlæging
 • baktal eða sögusagnir
 • meðvituð útilokun
 • þöggun
 • upplýsingum vísvitandi haldið frá aðila
 • skemmdarverk
 • óraunhæft eftirlit
 • skortur á umburðarlyndi gagnvart sérstöðu einstaklinga. (Vinnueftirlit, 2021)

Viðbragðsáætlun Listaháskólans við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi má finna hér.

Viðbragðsteymi

Framkvæmdaráð skipar aðila teymisins og getur óskað eftir upplýsingum um störf þess.

Við skipan skal leitast við að hafa jöfn kynjahlutföll.  Komi upp vafi á hæfi nefndarmanna í einstaka málum skal viðkomandi aðili víkja sæti og annar skipaður í hans stað. Farið skal eftir stjórnsýslulögum varðandi hæfi. Aðilum teymisins er skylt að gæta trúnaðar um öll mál sem til þess berast.

Í viðbragðsteymi sitja tveir utanaðkomandi sérfræðingar sem hafa þekkingu og reynslu af meðferð slíkra mála. Tilkynnt er um mál hér.

Tilkynningar

Telji einhver að brotið hafi verið á sér af hálfu starfsmanns eða nemanda LHÍ, er viðkomandi eindregið hvattur til að snúa sér með tilkynningu um brot til fyrrgreinds aðila.

Hafi starfsmaður eða nemandi innan LHÍ rökstuddan grun eða vitneskju um brot á öðrum einstaklingi af hálfu starfsmanns eða nemanda LHÍ, skal viðkomandi snúa sér með tilkynningu um brot til fyrrgreinds aðila.

Málsmeðferð

Teymið skal rannsaka mál sem til þess berast, gæta jafnræðis og meðalhófs og skila af sér niðurstöðu svo fljótt sem verða má. Þær aðgerðir sem gripið er til í ferli máls eru í samráði við þann aðila sem brotið er gegn skv. tilkynningu. Fyllsta trúnaðar er gætt í viðtölum.

Við tilkynningu skal teymið bjóða þeim sem tilkynnir brotið á fund teymisins. Berist tilkynning frá öðrum aðila en þeim sem brotið er gegn skal teymið bjóða þeim aðila sem talið er að brotið var gegn á fund og kanna afstöðu þess aðila til tilkynningarinnar.

Við móttöku máls hefst teymið handa við að meta aðstæður og safna frekari upplýsingum um málið í samráði við meintan þolanda. Eftir eðli málsins getur t.d. til greina komið að tala við meintan geranda og/eða aðra samstarfsmenn/samnemendur.

Verði málið tekið til formlegrar meðferðar mun teymið safna sem nákvæmustum upplýsingum og skrásetja hvar, hvenær og hvernig eineltið hefur átt sér stað. Að því loknu leggur teymið til tillögur til stjórnenda um viðeigandi úrræði.

Úrræði

Úrræði sem til greina koma eru m.a.:

 • Lausnamiðuð leið fyrir þolanda og geranda t.d. í formi viðtala.
 • Almenn fræðsla og umfjöllun um samskipti.
 • Sáttafundir.
 • Formleg áminning eða í undantekningartilfellum fyrirvaralaus brottvikning.
Eftirfylgni
 • Öllum eineltismálum er fylgt eftir með samtölum við málsaðila þar sem metið er hvort eineltishegðun hefur haldið áfram í einhverri mynd. Ef ekki tekst að finna viðeigandi lausn og bæta aðstæður skal endurskoða þau úrræði sem valin voru.

Viðbragðsteymi

Tilkynna mál 

Siðareglur