Kl. 9.00–10.00 Stofa 55 (3. mars)
Sigrún Inga Hrólfsdóttir og Marteinn Sindri Jónsson fjalla um ritgerðir sínar til MA gráðu í heimspeki frá síðastliðnu ári. Eiginleikar hugsunarinnar, þar með talið minnið, og aðferðafræði listanna og fagurfræðinnar við að varpa ljósi á eiginleika verunnar eru umfjöllunarefni beggja. Upplifun mannsins af heiminum er ekki einföld heldur margþætt og margháttuð og tungumálið og þau tjáningarform sem við þekkjum geta aðeins gert grein fyrir hluta þess sem við verðum vör við. Þá er ómögulegt að segja til um það hvernig aðrar lífverur, önnur lífsform og jafnvel það sem við teljum gjarnan „lífvana“ skynja umhverfi sitt. Hafa fílar minningar? En steinar? En bíllyklar? ...
Sigrún Inga Hrólfsdóttir: Hlutmiðuð verufræði - Leikur hugsunar og efnis í heimspeki og list (IS)
Í ritgerðinni er fjallað um nýstárlega kenningu á sviði heimspeki og fagurfræði sem nefnist hlutmiðuð verufræði (e. object-oriented ontology). Kenning þessi felur í sér að allt sé hlutur og upphafsmenn hennar færa rök fyrir því að orsakasamhengi eigi sér stað í vídd skynjunar. Í ritgerðinni er gerð grein fyrir því hvað hlutmiðuð verufræði er og því sem skiptir máli til þess að öðlast skilning á fyrirbærinu. Ritgerðin rekur í þeim tilgangi þræði raunhyggju og rökhyggju fortíðarinnar. Inn í þetta fléttast uppgötvanir á sviði eðlisfræði á 20. öld auk þess sem hlutmiðuð verufræði er sett í samhengi við heimspekilega orðræðu og listsköpun í samtímanum.
Marteinn Sindri Jónsson: Öðrun og örðun - Um hugtakið að-verða-dýr í verki Gilles Deleuze og Félix Guattari, Þúsund flekar: Kapítalismi og skitsófrenía (IS)
Í ritgerðinni er fjallað um hugtakið að-verða-dýr úr smiðju frönsku hugsuðanna Gilles Deleuze (1925-1995) og Félix Guattari (1930 - 1992). Ítarlegustu umfjöllun þeirra um hugtakið er að finna í kaflanum „Að-verða-ákafur, að-verða-dýr, að-verða-ósýnilegur...“ úr verkinu Þúsund flekar: Kapítalismi og skitsófrenía frá árinu 1980.
 
Dýrið er tákn um hinn, eitthvað annað en manninn, og því er umfjöllun Deleuze og Guattari umfjöllun um annarleika (e. otherness) og öðrun (e. othering). Þeir nota hugtakið til að leysa upp kunnugleg form veruleikans, en slíka upplausn kenna þeir við örðun (e. involution). Það sést einna helst í því að hugtakið að-verða-dýr felur í sér fjölda annara hugtaka svosem að-verða-kona, að-verða-barn, að-verða-öreind o.s.frv.
 
Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki við HÍ, var leiðbeinandi við skrif beggja í ritgerðanna og mun hann stýra umræðum.