Valur Hreggviðsson

Ef þú gengur framhjá Kaffibarnum á mánudagskvöldi er ekki ólíklegt að þú heyrir óm ættjarðarlaga og drykkjuvísna berast frá efri hæð hússins og út á götu. Þar uppi hefur kallakórinn Bartónar aðsetur sitt og ef söngvar heyrast er kóræfing í fullum gangi.
Verkið sækir innblástur í Bartóna, en ég er hluti af þeim hóp. Við hittumst á Kaffibarnum á mánudagskvöldum og syngjum saman í fjórradda kór. Þessi samverustund sem við eigum einu sinni í viku er innblástur minn fyrir útskriftarverk LHÍ.
Útlitsleg einkenni verksins eru sótt í útlitsleg einkenni Kaffibarsins og þar spilar litapallettan stórt hlutverk. Pastel bleikur litur er ráðandi á efri hæðinni á meðan neðri hæðin er pastel græn og brún. Rauð bárujárnsklæðning á húsveggjum að utan gefur Kaffibarnum sitt sérstæða útlit og ég nýti mér það í myndrænni framsetningu verksins.
Einstaklingarnir sem mynda kórinn eru jafn misjafnir og þeir eru margir, með ólíkan bakgrunn og skoðanir. Í kórnum eru hinsvegar allir jafnir og vil ég draga það fram með portrett myndum af öllum meðlimum, í sömu stærð og stíl með litapalletu Kaffibarsins því til stuðnings.
Ég tók upp kóræfingu einn mánudaginn til þess að reyna að fanga stemninguna sem þar ríkir.
Hún einkennist af gleði, söng og vináttu. Þessa upptöku nota ég sem hljóðverk í innsetningunni því það er varla viðeigandi að skapa kórtengda innsetningu án þess að leyfa röddunum að hljóma.