Umsóknarferli
Umsóknarferlið gengur þannig fyrir sig að fyrst er rafræn umsókn fyllt út, umsóknargjald greitt og umsókn staðfest. Hægt er að vista umsókn á meðan verið er að vinna í henni. Athugið að ljósmynd af umsækjanda þarf að fylgja rafrænni umsókn. Í rafrænu umsókninni gefst umsækjanda kostur á að tilgreina ástæður umsóknar, markmið, framtíðarsýn og fleira í stuttum texta.
Umsóknin
Til að umsókn sé fullgild þarf að borga umsóknargjald og eftirfarandi gögn þurfa að berast Listaháskólanum:
1. Staðfest afrit af prófskírteinum (ljósrit gildir ekki)
a) Skannið frumrit af prófskírteinum og hengið við umsókn, eða
b) Fáið staðfest afrit af prófskírteinum með stimpli frá viðkomandi skóla, skannið og hengið við umsókn
2. Mappa (Portfolio)
Umsækjendur skulu safna sýnishornum af verkum sínum saman í möppu (portfolio).
Mappan skal innihalda að hámarki fimm sýnishorn, sem eiga að endurspegla persónuleika umsækjanda, varpa ljósi á helstu hugðarefni hans og úr þeim á að vera hægt að lesa listræna hugsun umsækjanda og getu hans til framsetningar á hugmyndum sínum.
Í raun rúmast allt innan möppunnar sem að mati umsækjandans sjálfs getur með einum eða öðrum hætti lýst því sem hann vill ná fram með vinnu sinni á viðkomandi sviði og getur vitnað til um hvort hann hafi hæfileika til að koma því á framfæri við aðra. Sem dæmi um innihald möppunar eru: gjörningar, sviðsverk, ritgerðir, ljóð, sögur, stuttmyndir, leikrit eða kvikmyndahandrit og upptökur af verkum.
Hægt er að skila möppu (portfolio) með þrennum hætti:
-
Umsækjendur skila inn möppu á skrifstofu Sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91, 105 Reykjavík.
-
Umsækjendur skila inn möppu með pósti stíluð Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91, 105 Reykjavík, merkt UMSÓKN - SVIÐSHÖFUNDANÁM. Mappan skal þá póstlögð eigi síðar en auglýstur umsóknarfrestur, en umsækjendur eru hvattir til að póstleggja fyrr þar sem tafir geta verið póstsendingum.
-
Umsækjendur skila inn möppu á rafrænu formi. Mappan þarf að vera á .pdf formi og á allri möppunni að vera skilað sem einu .pdf skjali. Hljóðverk, videóverk og sambærileg skjöl skulu send sem virkir hlekkir/slóð inni í möppunni. Rarænni möppu er skilað inn sem viðhengi (attachment) í rafrænu umsókninni.
Umsækjendur fá staðfestingu á því að LHÍ hafi móttekið umsóknina eftir að deildarfulltrúar hafa gengið úr skugga um að umsækjandi hafi skilað inn öllum nauðsynlegum fylgiskjölum. Umsóknin er fyrst fullkláruð þegar möppu hefur verið skilað. Með hliðsjón af umsókn og möppu verður völdum umsækjendum boðið að þreyta inntökupróf. Umsækjendur sem komast áfram fá nánari upplýsingar sendar með tölvupósti.
Inntökuferli
Í inntökunefnd sitja að jafnaði fagstjóri sviðshöfundanáms sem er formaður nefndarinnar, kennari við námsleiðina eða deildarforseti, og einn utanaðkomandi sviðslistamaður. Jafnframt situr inntökurnar fulltrúi nemenda sem áheyrnarfulltrúi.
Inntökunefndin velur nemendur úr hópi umsækjenda sem talið er að hafi forsendur til að stunda nám á námsleiðinni og standast þær kröfur sem gerðar eru í listnámi á háskólastigi. Inntökunefndin hefur að leiðarljósi að viðkomandi geti sem best nýtt sér það nám sem í boði er og því skal ekki túlka mat hennar sem einhlítan úrskurð um hæfni umsækjandans til listsköpunar yfirleitt.
Þættir sem inntökunefnd metur eru meðal annars:
-
Hugmyndaauðgi: Hæfni til að finna hugmyndum sínum farveg með skapandi hætti. M.a. er horft til forvitni og áræði í hugmyndum og framsetningu.
-
Formskynjun: Meðvitund um möguleika og mörk þeirra tjáningarforma sem umsækjandi velur sér.
-
Uppbygging: Hæfni til samsetningar lifandi atriða á skapandi hátt. Horft er m.a. til flæðis, dramatúrgíu og uppbrota.
-
Rýmisskynjun: Hæfni og möguleikar umsækjanda til að skynja og vinna með líkama í samhengi við rými, tíma og aðstæður.
-
Samvinna: Hæfni umsækjanda til samvinnu. Hvernig viðkomandi tekur gagnrýni og hugmyndum annarra og nýtir það til sköpunar. Horft er til sjálfstæðis og frumkvæðis í vinnu.
-
Tjáning og gagnrýnin hugsun: Hæfni umsækjanda til að tjá sig um þau verkefni sem hann velur sér og fyrir hann eru lögð sem og um samtímalistir, sér í lagi sviðslistir.
Inntökuprófið er í tveimur þrepum og fer fram dagana 29. apríl - 1. maí.
1. þrep:
Fyrri hluti inntökuprófsins samanstendur annars vegar af skriflegu verkefni, þar sem lögð er áhersla á greiningarhæfni og skapandi úrvinnslu, og hins vegar af hópverkefni.
2. þrep:
Síðari hluti inntökuprófs felur annars vegar í sér flutning á stuttu frumsömdu atriði/gjörningi (nánari lýsing kemur með boði í inntökupróf) og hins vegar viðtali. Viðtalið hefur þann tilgang að kanna almennan áhuga umsækjenda á tilvonandi námi, afstöðu þeirra, sýn og viðhorf til sviðslista og hugmyndir að baki verkum sem send voru inn í möppunni. Einnig verður rætt um upplifun og framlag umsækjandans í inntökuferlinu.
Öllum umsækjendum verður sent skriflegt svar við umsóknum. Þeir umsækjendur sem fá boð um skólavist þurfa að staðfesta á skrifstofu deildarinnar fyrir maí lok hvort þeir hyggist taka því og greiða staðfestingargjald. Gjaldið er óafturkræft en gengur upp í skólagjöld mæti viðkomandi í námið um haustið.
Störf inntökunefndar eru trúnaðarmál og birtir hún ekki umsagnir um einstakar umsóknir. Úrskurður hennar er endanlegur og verður ekki vísað til endurskoðunar annarsstaðar innan skólans.
Inntökuskilyrði
Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Listnám er tekið til greina þegar umsókn er metin.
Undanþágur vegna inntöku
Listaháskólanum er heimilt að veita inngöngu í skólann umsækjendum sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur til bakkalárnáms við skólann. Þó er við það miðað að umsækjendur hafi lokið eigi færri en 105 einingum úr eldra kerfi framhaldsskólastigsins eða 150 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja kerfinu.