Umsóknarferli

Umsóknarferlið gengur þannig fyrir sig að fyrst er rafræn umsókn fyllt út, umsóknargjald greitt og umsókn staðfest. Hægt er að vista umsókn á meðan verið er að vinna í henni. Athugið að ljósmynd af umsækjanda þarf að fylgja rafrænni umsókn.
 
Umsækjendur fá svo staðfestingu á því að LHÍ hafi móttekið umsóknina eftir að deildarfulltrúar hafa gengið úr skugga um að umsækjandi hafi skilað inn öllum nauðsynlegum fylgiskjölum.
 
Umsækjendur þurfa síðan að skila inn möppu (portfolio) á skrifstofu viðkomandi deildar eða senda í pósti og skal mappan þá póstlögð eigi síðar en auglýstur frestur rennur út.

Umsókn

1. Prófskírteini (ljósrit gildir ekki)
a) Skannið frumrit  af prófskírteinum og hengið við umsókn, eða
 
b) Fáið staðfest afrit af prófskírteinum með stimpli frá viðkomandi skóla, skannið og hengið við umsókn
 
2. Mappa (Portfolio)
Umsækjendur skulu safna sýnishornum af verkum sínum saman í möppu (portfolio) á efnislegu formi.
 
Ekki er tekið við geisladiskum, minniskubbum né er hægt að vísa í heimasíður, nema sem ítarefni. Verkin eiga að endurspegla persónulega sýn nemandans, varpa ljósi á helstu hugðarefni hans og úr þeim á að vera hægt að lesa hvaða hæfileika hann hefur til frumlegrar sköpunar og framsetningar á hugmyndum sínum.
 
Ekki er nauðsynlegt að öll verkin séu fullgerð eða þau útfærð til hins ítrasta. Þvert á móti er mikilvægt að þar sé einnig að finna hvers konar skissur og teikningar, ljósmyndir, texta og jafnvel hljóðverk.
 
Í raun rúmast allt innan möppunnar sem að mati nemandans sjálfs getur með einum eða öðrum hætti lýst því sem hann vill ná fram með vinnu sinni á viðkomandi sviði og getur vitnað til um hvort hann hefur hæfileika til að koma því á framfæri við aðra.
 
Umsækjandi sem sækir um skólavist við fleiri en eina námsbraut innan deildarinnar skal leggja fram möppu með hverri umsókn.
 
ATH: Mappan skal vera nafnlaus en umsækjandi skal merkja hana með réttu umsóknarnúmeri. Þetta númer sést bæði á rafrænu umsóknareyðublaði sem umsækjandi fyllir út og í staðfestingartölvupósti þegar nemandi hefur lokið við og sent inn umsóknina. 
 
Möppur skulu sóttar aftur á skrifstofu skólans í Þverholti 11 innan tilgreinds tímaramma. Ósóttar möppur verða ekki geymdar og áskilur skólinn sér rétt til að eyða þeim.

 

Inntökuferli

Skipuð er inntökunefnd fyrir hverja námsbraut.
 
Nefndin er skipuð tveim til þrem fagaðilum sem velja nemendur úr hópi umsækjenda. Valið byggir á mati á innsendum verkum og viðtölum. Umsækjendur geta átt von á því að þurfa að mæta í verklegt próf. Inntökuferlið er í eftirfarandi þrepum:
 
1. Eftir að umsóknir hafa verið metnar fer hver inntökunefnd yfir innsend verk. Mælikvarðarnir sem gengið er út frá eru fagleg kunnátta og listrænt gildi. Sérstök áhersla er lögð á að meta þau verk umsækjenda sem þeir hafa unnið sjálfstætt og eftir eigin forsendum. Umsækjendur sem standast mat inntökunefndar komast í úrtakshóp.
 
2. Þeim sem komast í úrtakshóp er boðið í viðtöl. Viðtalið hefur þann tilgang að kanna almennan áhuga umsækjenda á tilvonandi námi, afstöðu þeirra og viðhorf til hönnunar- og arkitektúrs, skilning þeirra á hönnunarheiminum og hugmyndir að baki verkum þeirra. Umsækjandi má gera ráð fyrir því að þurfa að tjá sig um verk þau sem hann hefur sent inn. Viðtölin fara alla jafna fram á íslensku. Í þeim tilvikum þar sem það á við fara viðtölin fram á ensku
 
3. Inntökunefnd er heimilt að boða umsækjendur í inntökupróf ef þess er talin þörf.
 
4. Öllum umsækjendum verður sent skriflegt svar við umsóknum í maí. Þeir umsækjendur sem fá boð um skólavist þurfa að staðfesta á skrifstofu deildarinnar fyrir maílok hvort þeir hyggist taka því og greiða staðfestingargjald. Gjaldið er óafturkræft en gengur upp í skólagjöld mæti viðkomandi í námið um haustið.
 
5. Úrskurður inntökunefndarinnar er endanlegur og henni er ekki skylt að gefa nánari skýringar á úrskurði sínum.

 

Inntökuskilyrði

Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. 
 
Undanþágur vegna inntöku
Listaháskólanum er heimilt að veita inngöngu í skólann umsækjendum sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur til bakkalárnáms við skólann. Þó er við það miðað að umsækjendur hafi lokið eigi færri en 105 einingum úr eldra kerfi framhaldsskólastigsins eða 150 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja kerfinu.

 

 

MIKILVÆGAR UPPLÝSINGAR

Opnað fyrir umsóknir: 8.nóvember 2019

Umsóknarfrestur: 23. mars 2020

Umsóknum svarað: Maí 2020

Upphaf haustannar: 24. ágúst 2020

Umsóknargjald 5000 kr.

 

UMSÓKNIR

Arkitektúr
Fatahönnun
Grafísk hönnun
Vöruhönnun

 

HAFA SAMBAND

hafdis [at] lhi.is (Hafdís Harðardóttir,) deildarfulltrúi

 

 

FLÝTILEIÐIR

Skólagjöld

Forsíða hönnunar- og arkitektúrdeildar