Umsóknar- og inntökuferli 

Til að sækja um bakkalarnám í Kvikmyndalist er rafræn umsókn fyllt út, umbeðin gögn látin fylgja og í kjölfarið þarf að greiða umsóknargjaldið. Þegar þessum skrefum er lokið og þegar gengið hefur verið úr skugga um að umsækjandi hafi skilað inn öllum nauðsynlegum upplýsingum og fylgiskjölum fær hann staðfestingu í tölvupósti á að rafræn umsókn sé fullgild og móttekin.

Rafrænu umsóknina er að finna hér.

 

Leiðbeiningar

Hér fyrir neðan eru sérleiðbeiningar fyrir vissa þætti umsóknarinnar:

Greinargerð (skylda)

Í 300 orðum, segðu okkur frá þér og af hverju þú ert að sækja um í kvikmyndalistadeild Listaháskólans. Hvers vegna viltu starfa í kvikmyndagerð? Af hverju þú? Af hverju núna? Hverjar eru vonir og væntingar þínar til framtíðarinnar?

Ferilmappa / portfolio (skylda)

Þetta er skapandi hluti umsóknarinnar, til að gefa okkur tækifæri til að kynnast hæfni þinni og hæfileika á þessu sviði.

Á einu PDF skjali, sendu inn eftirfarandi tvö sýnishorn af þinni vinnu:

  1. Ritaður texti, að hámarki 3 blaðsíður: Segðu okkur sögu á því formi sem þú kýst (handrit, ítarlegur söguþráður, prósi etc). Sagan á að innahalda að minnsta kosti eina persónu, einn sögustað, og á öll að gerast á einum degi.
  2. Sjónræn frásögn: Veldu 10 myndir og raðaðu þeim upp þannig að úr verði saga sem fangar áhorfandann og viðheldur athygli hans. Í stuttum texta (í mesta lagi hálf síða) skaltu útskýra verkið og hugsunina á bakvið það.

Prófskírteini (skylda)

Hér máttu láta fylgja prófskírteini eða diploma skjöl vegna annarrar menntunar sem þú hefur sótt þér.

Tenglar (valkvætt)

Hér getur þú sent okkur tengla á þín fyrri verk, kvikmyndir, myndbönd, eða önnur skapandi verkefni sem þú telur að gætu stutt við umsókn þína.

Námskeiðaval (skylda)

Í upphafi er námið almenns eðlis að því leytinu til að nemendur læra kvikmyndgerð þvert á hin ýmsu svið kvikmyndalistarinnar (handritagerð, leikstjórn, framleiðslu, etc.). Smátt og smátt hallast hver nemandi þó að sérhæfingu á einu sviði.

Inntökuferli

Inntökunefnd sem skipuð er fagaðilum af vettvangi kvikmyndagerðar og/eða kennurum við Kvikmyndalistadeild, fer yfir allar umsóknar frá umsækjendum sem uppfylla inntökuskilyrði deildarinnar.

Þeim sem komast í úrtakshóp er síðan boðið í viðtal. Viðtalið hefur þann tilgang að kanna áhuga umsækjenda á tilvonandi námi, afstöðu og viðhorf til kvikmyndagerðar og hugmyndir um eigin verk. Umsækjandi má gera ráð fyrir því að þurfa að veita nánari upplýsingar um þau atriði sem fram koma i umsókninni, og sérstaklega að vera tilbúinn að ræða þau skapandi verk sem hann sendi inn. Fyrir þá umsækjendur sem staddir eru erlendis eða geta einhverra hluta vegna ekki mætt í eigin persónu, er boðið er upp á viðtal við inntökunefnd í gegnum fjarfundarbúnað.

Árgangur viðkomandi árs er svo valinn úr hópi þeirra sem boðið var í viðtal. Þeir umsækjendur sem fá boð um skólavist þurfa að staðfesta með því að greiða staðfestingargjald. Gjaldið er óafturkræft en fer upp í skólagjöld fyrstu annar. Úrskurður inntökunefndarinnar er endanlegur og er nefndinni ekki skylt að gefa nánari skýringar á úrskurði sínum.

 

Inntökuskilyrði

Gert er ráð fyrir að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Æskilegt er að umsækjendur hafi í sínu framhaldsskólanámi sótt námskeið sem tengjast kvikmyndagerð, en slíkt er þó ekki skilyrði. Í einstaka tilvikum er Listaháskólanum heimilt að veita umsækjendum inngöngu í skólann sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur til bakkalárnáms, en þó er miðað við að umsækjendur hafi lokið eigi færri en 105 einingum úr eldra kerfi framhaldsskólastigsins eða 150 framhaldsskólaeiningum samkvæmt nýja kerfinu.

Kennslutungumálið er að mestu leyti íslenska. Einstaka námskeið eru þó kennd á ensku og því er þess vænst að nemendur séu færir um að skilja, rita og tala bæði tungumál.

 

MIKILVÆGAR UPPLÝSINGAR

Opnað fyrir umsóknir: 9. janúar 2023

Umsóknarfrestur: 12. apríl 2023

Umsóknum svarað: Maí/júní 2023

Umsóknargjald: 5000 kr.

UMSÓKNIR

Rafræn umsókn

HAFA SAMBAND

gunkalar [at] lhi.is (Guðrún Lárusdóttir), deildarfulltrúi

FLÝTILEIÐIR

Skólareglur
Háskólalög
Skólagjöld LHÍ
Kennsluskrá LHÍ