Listkennsludeild Listaháskóla Íslands

Í listkennsludeild eru fjórar námsleiðir.
Þar af þrjár í kennslufræðum og ein í samfélagslistum:
Kennslufræði:
 
Meistaranám í listkennslufræðum (MA / M.Art.Ed / MT / M.Mus.Ed) 
Meistaranám í kennslufræðum (MA / M.Ed / MT)  
Diplómanám í listkennslu/ kennslufræðum (diplóma)
 
Innan námsleiðanna þriggja eru samtals fimm leiðir.
Ýtið á hlekkina til að skoða kennsluskrá og nánari upplýsingar um námsleiðir:​
 

 

Meistaranám í listkennslufræðum

Nám í listkennslufræðum miðar að því að mennta listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi. Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreina og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.

Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi. Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá gildandi námskrám og valið námsgögn, náms- og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um listnám og námsframboð í samfélaginu.

Í listkennsludeild er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem hefur það að takmarki að tileinka sér og þróa aðferðir við listkennslu með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.

Helstu áherslur

  • Að veita afbragðsmenntun fyrir verðandi listgreinakennara þar sem tekið er mið af forsendum og vinnubrögðum listgreinanna sjálfra.
  • Að mæta brýnni þörf fyrir öfluga og vel menntaða listgreinakennara á öllum skólastigum.
  • Að stuðla að þróun nýrra náms- og kennsluhátta í listkennslu og miðlun.
  • Að efla læsi í víðum skilningi, sjálfbærni og sköpun í listkennslu og miðlun.
  • Að stuðla að jafnrétti til náms og efla mannréttindi með því að öllum nemendum bjóðist námsumhverfi og verkefni við hæfi, óháð bakgrunni, áhugasviði eða lífsskoðunum. 

Nemendamiðað meistaranám

Nám við listkennsludeild er nemendamiðað og lýkur með meistaragráðu í listkennslu. Inntak námsins miðar að því að þjálfa leiðtogafærni í listgreinakennslu þar sem listafólk úr ýmsum listgreinum vinnur saman og samhliða að kennslufræðilegum úrlausnarefnum.

Áhersla er lögð á efla persónulega færni nemenda með markvissri þjálfun í að setja sér persónuleg og fagleg markmið sem reyna á sjálfstæði og úthald ásamt tjáningar- og miðlunarhæfni.

Nemendur einbeita sér að sinni sérgrein en með stöðugu samtali og samstarfi á milli listgreina er opnað fyrir framþróun og nýja möguleika í listkennslu. 

Skipulag

Nemendur sem hefja nám við deildina þurfa að hafa lokið bakkalárprófi, sambærilegu háskólanámi eða diplómanámi í listum eða hönnun.

Námið er 60 - 180 einingar í staðnámi. Námstími ræðst af fyrra námi og reynslu nemenda. Fullt nám er 30 einingar á önn eða 60 einingar á skólaári en mögulegt er að lengja námstíma með færri einingafjölda á ári. Námi skal þó lokið á að hámarki tvöföldum námstíma.

Nemendur útskrifast annað hvort með M.Art.Ed. gráðu eða MA (rannsóknartengd gráða).

Starfsréttindi

Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa fá nemendur starfsréttindi (leyfisbréf) við útskrift. Leyfisbréfið innifelur rétt útskrifaðra nemenda til að kalla sig kennara og starfa sem slíkur hér á landi á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. 

Leyfisbréf kennara er skilgreint í lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. 

Ítarlegri upplýsingar um leyfisbréf kennara má finna á vef Menntamálastofnunar.

Lokaverkefni

Á námstímanum vinna nemendur eigin verkefni sem geta verið í formi fræðilegrar ritgerðar, nýs námsefnis, skipulagningar listviðburðar, eigin listaverks eða listsköpunar þar sem aðferðum listrannsókna eða annarra rannsóknaraðferða er beitt. Verkefnin tengjast þó öll kennslu og miðlun á einhvern hátt. Áhersla er lögð á sjálfstæð fagleg vinnubrögð, skapandi nálgun, gagnrýna hugsun, ígrundun á eigin frammistöðu og mótun eigin starfskenningar.

Lokaverkefni eru 10 - 20 - 30 einingar. Mat lokaverkefna er í höndum sérfróðs utanaðkomandi prófdómara.

Markmið deildarinnar er að tengja vinnu nemenda við verkefni utan skólans. Sem dæmi um slíkt hafa útskriftarverkefni verið unnin í samstarfi við ýmsa grunn- og framhaldsskóla sem og sérskóla. Einnig hafa verkefni verið unnin í samstarfi við listasöfn, listahátíðir, fyrirtæki og menningarmiðstöðvar ásamt sjálfstætt starfandi listamönnum. Þátttaka listkennslunema í Barnamenningarhátíð er t.a.m. árlegur viðburður.

Hæfniviðmið

Að námi loknu eiga nemendur að hafa þekkingu og reynslu til að geta tekið að sér listkennslu fyrir alla aldurshópa ásamt því að leiða listviðburði, þróunar- og listsköpunarverkefni innan skóla og fyrirtækja.

Að loknu námi býr nemandi yfir þekkingu, færni/leikni og hæfni á sviði listkennslu.
Í því felst að nemandi skal hafa náð eftirfarandi hæfniviðmiðum:

ÞEKKING

Þekking og skilningur

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi þekki og skilji:

  • Helstu kenningar og hugtök á sviði kennslufræða.  
  • Helstu aðferðir og nálganir listkennslu og listmiðlunar.
  • Hlutverk aðalnámskrár og gildi hennar í mótun og skipulagi skólastarfs.
  • Þau álitamál sem tekist er á við hverju sinni við undirbúning og framkvæmd listkennslu. 
  • Siðareglur kennara og gildi fagmennsku í kennarastarfi.
  • Viðurkenndar rannsóknaraðferðir á sviði listkennslufræða.

FÆRNI / LEIKNI

Hagnýt færni

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi færni til að:

  • Nýta þá tækni og verkþekkingu sem kennsla í faginu krefst.
  • Nýta persónulega færni við sköpun, þróun og útfærslu hugmynda í kennslu og miðlun.
  • Vinna kennslu- og verkefnaáætlanir í samræmi við aðstæður. 
  • Leiða ólíka hópa í kennslu- og listtengdum verkefnum.
  • Hafa frumkvæði að samtali milli ólíkra greina í skólastarfi.
  • Taka sjálfstæðar, faglegar ákvarðanir og geta rökstutt þær á kennslufræðilegum grunni.
  • Nýta þekkingu sína, skilning og úrlausnarhæfni í samhengi við kennslu og miðlun.

Fræðileg færni

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi færni:

  • Til að yfirfæra fagþekkingu sína og setja í kennslufræðilegt samhengi.
  • Til að rökstyðja faglega nálgun sína í starfi á fræðilegum grunni. 
  • Til að skrásetja og greina niðurstöður, verkefni eða viðburð á viðeigandi hátt.
  • Sem geri hann læsan á rannsóknir á sviði listkennslufræða.
  • Til að meta niðurstöður rannsókna á faglegum grunni.
  • Til að afla, greina og meta gögn í rannsóknar- og listsköpunarferli. 

HÆFNI

Hæfni í miðlun og samskiptum

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi hæfni til að:

  • Miðla þekkingu sinni, hugmyndum og kunnáttu í listkennslu til margs konar hópa og við ólíkar aðstæður. 
  • Hafa frumkvæði að kennslu- og listverkefnum, stýra þeim og axla ábyrgð á vinnu einstaklinga og hópa.
  • Taka virkan þátt í samstarfi.

Fræðileg hæfni

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi hæfni til að:

  • Ígrunda og meta eigin frammistöðu á fræðilegum grunni og nýta til persónulegrar þróunar og fagmennsku í starfi.
  • Til að meta og greina niðurstöður rannsókna (eigin /annarra) á faglegum grunni.
  • Miðla fræðilega rökstuddum niðurstöðum verkefna á viðeigandi hátt. 
  • Beita þeim vinnubrögðum og námstækni sem frekara nám á rannsóknartengdu meistara- og doktorsstigi í listkennslu krefst.

 

Meistaranám í kennslufræðum

Námið miðar að því að mennta fólk sem hefur lokið námi á almennum fræðasviðum en vill nota aðferðir lista í kennslu. Markmiðið er að bjóða nám þar sem hópur fólks úr ólíkum fræðigreinum vinni í þverfaglegu samtali að þróun kennslu með áherslu á aðferðir lista með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.

Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu- og sálarfræði, aðferðum lista/listsköpunar, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun kennsluefnis og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.

Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi. Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá gildandi námskrám og valið námsgögn, náms- og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um nám og námsframboð í samfélaginu.

Einnig er lögð áhersla á efla persónulega færni nemenda með markvissri þjálfun í að setja sér persónuleg og fagleg markmið sem reyna á sjálfstæði og úthald ásamt tjáningar- og miðlunarhæfni. Með stöðugu samtali og samstarfi á milli greina er opnað fyrir framþróun og nýja möguleika í kennslu. 

Skipulag

Nemendur sem hefja nám við námslínuna þurfa að hafa lokið bakkalárprófi eða sambærilegu háskólanámi á fagsviði sínu.

Námið er nemendamiðað 120 einingar í staðnámi. Nemendur útskrifast annað hvort með M.Ed. gráðu eða MA gráðu (rannsóknartengd gráða). 

Starfsréttindi

Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa fá nemendur starfsréttindi (leyfisbréf) til almennrar kennslu á grunnskólastigi og geta sótt um leyfisbréf til kennslu á sínu fagsviði eða kennslugrein á framhaldsskólastigi.

Lokaverkefni

Lokaverkefni geta verið í formi fræðilegrar ritgerðar, nýs námsefnis, rannsóknar eða skipulagningar viðburðar. Verkefnin tengjast þó öll kennslu og miðlun á einhvern hátt. Áhersla er lögð á sjálfstæð fagleg vinnubrögð, skapandi nálgun, gagnrýna hugsun, ígrundun á eigin frammistöðu og mótun eigin starfskenningar.

Hæfniviðmið

 
Við lok náms við listkennsludeild býr nemandi yfir þekkingu á sviði kennslu.
Í því felst að nemandi skal hafa náð eftirfarandi viðmiðum:
 
ÞEKKING

Þekking og skilningur

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi þekki og skilji:
  • Helstu kenningar og hugtök á sviði kennslufræða.  
  • Helstu aðferðir og nálganir í þverfaglegu listmiðuðu skólastarfi.
  • Hlutverk aðalnámskrár og gildi hennar í mótun og skipulagi skólastarfs.
  • Þau álitamál sem tekist er á við hverju sinni við undirbúning og framkvæmd kennslu.
  • Siðareglur kennara og gildi fagmennsku í kennarastarfi.
  • Viðurkenndar rannsóknaraðferðir á sviði kennslufræða.
FÆRNI / LEIKNI

Hagnýt færni 

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi færni til að:
  • Nýta þá tækni og verkþekkingu sem kennsla í faginu krefst.
  • Nýta persónulega færni við sköpun, þróun og nýtingu hugmynda í kennslu og miðlun.
  • Vinna kennslu- og verkefnaáætlanir í samræmi við aðstæður.
  • Leiða ólíka hópa í þverfaglegu listmiðuðu skólastarfi.
  • Hafa frumkvæði að samtali milli ólíkra greina í skólastarfi.
  • Taka sjálfstæðar, faglegar ákvarðanir og geta rökstutt þær á kennslufræðilegum grunni.
  • Nýta þekkingu sína, skilning og úrlausnarhæfni í samhengi við kennslu og miðlun.

Fræðileg færni 

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi færni:
  • Til að yfirfæra fagþekkingu sína og setja í kennslufræðilegt samhengi. 
  • Til að rökstyðja faglega nálgun sína í starfi á fræðilegum grunni.
  • Til að skrásetja og greina niðurstöður, verkefni eða viðburð á viðeigandi hátt.
  • Sem geri hann læsan á rannsóknir á sviði kennslufræða.
  • Til að meta niðurstöður rannsókna á faglegum grunni.
  • Til að afla, greina og meta gögn í rannsóknarferli.
 
HÆFNI

Hæfni í miðlun og samskiptum

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi hæfni til að:
  • Miðla þekkingu sinni, hugmyndum og kunnáttu til margs konar hópa og við ólíkar aðstæður.
  • Hafa frumkvæði að kennsluverkefnum, stýra þeim og axla ábyrgð á vinnu einstaklinga og hópa.
  • Taka virkan þátt í samstarfi.

Fræðileg hæfni

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemandi hafi hæfni til að:
 
  • Ígrunda og meta eigin frammistöðu á faglegum grunni og nýta til persónulegrar þróunar og fagmennsku í starfi.
  • Til að meta og greina niðurstöður eigin rannsókna og annara á faglegum grunni.
  • Skrásetja niðurstöður, verkefni eða viðburð á viðeigandi hátt.
  • Beita þeim vinnubrögðum og námstækni sem frekara nám á rannsóknartengdu meistara- og doktorsstigi í kennslu krefst.
 

Nám við listkennsludeild er staðnám og kennt er í húsnæði deildarinnar við Laugarnesveg 91.

Kennsla fer fram á íslensku nema um erlenda gestakennara sé að ræða. Námsefni er ýmist á íslensku eða á ensku.

Sérreglur listkennsludeildar

MIKILVÆGAR UPPLÝSINGAR

Opnað fyrir umsóknir:  8. janúar 2024

Umsóknarfrestur: 13. maí 2024

Umsóknum svarað: Júní 2024

Umsóknargjald 5000 kr.

UMSÓKNIR

Rafræn umsókn
Sérleiðbeiningar deildar

HAFA SAMBAND

Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir deildarfulltrúi og verkefnastjóri, olofhugrun [at] lhi.is

FLÝTILEIÐIR

Skólareglur
Háskólalög
Skólagjöld LHÍ
Kennsluskrá LHÍ

Umsóknar- og inntökuferli