Úrskurðarnefnd í réttindamálum nemenda

Við skólann starfar sérstök úrskurðarnefnd sem fer með æðsta úrskurðarvald innan skólans í agamálum og í málum sem tengjast réttindum nemenda. Lesa má nánar um nefndina í Starfsreglum úrskurðarnefndar um réttindamál nemenda.

Nemendur eiga fulltrúa í deildarráðum. Einn nemandi úr hverri deild situr í fagráði skólans. Þá eiga nemendur aðild að háskólafundi sem er samstarfsvettvangur nemenda, kennara og stjórnenda skólans.

Réttindamál 

Almennt gildir að nemandi sem telur sig hafa verið beittan órétti snýr sér til viðkomandi kennara, umsjónarprófessors eða námsráðgjafa sem beinir málinu í réttan farveg til fagstjóra eða deildarforseta viðkomandi deildar sem leita lausna í málinu. Uni nemandi ekki þeirri lausn skal hann senda skriflegt erindi ásamt með rökstuðningi til rektors. Rektor fer yfir málið, tekur ákvörðun og nemandi fær skriflegt svar þar sem niðurstaða málsins er rökstudd. Ef nemandi sættir sig ekki við ákvörðun rektors getur hann áfrýjað til úrskurðarnefndar í réttindamálum nemenda.

Hafi nemendi gerst sekur um brot á lögum eða reglum skólans eða að framkoma hans gagnvart starfsmönnum eða öðrum nemendum er álitin ósæmileg eða óhæfileg getur rektor og/eða viðkomandi deildaforseti veitt honum skriflega áminningu. Sé um að ræða brot sem talið er alvarlegt og stríðir gegn grundvallarforsendum starfseminnar getur rektor vikið viðkomandi nemanda úr skóla tímabundið eða að fullu. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til úrskurðarnefndar um réttindamál nemenda. Um mál af þessu tagi skal að öðru leyti fara eftir lögum.

Trúnaður við nemendur

Allir nemendur Listaháskólans eru sjálfráða einstaklingar og fara því með sín mál sjálfir. Ekki er ætlast til að kennarar og starfsfólk fjalli um nemendur og málefni þeirra við utanaðkomandi fólk, þ.m.t. aðstandendur. Ef þörf er á að fjalla um persónuleg mál eða önnur viðkvæm mál geta nemendur haft samband við trúnaðarmann nemenda, Björg Jóna Birgisdóttir bjorg [at] lhi.is

Fagstjórar deilda og deildarforseti eru auk þess með viðtalstíma fyrir nemendur sem hægt er að bóka hjá deildarfulltrúa eða þjónustufulltrúa.