Tora Stiefel
www.tora.is

MIMESIS er forngríska og þýðir endurtekning, eftirgerð, eftirlíking. Í verkinu fjalla ég um þær tilfinningar sem ég hafði um sjálfa mig og heiminn þegar ég var í afneitun um hver ég væri. Það segir mína sögu. Verkið er um endurtekningu. Ég geri sömu myndina aftur og aftur, dag eftir dag. Með því að endurgera tilfinninguna sem ég upplifði vil ég draga fram tilfinningu öngstrætis, örvæntingar og villuráfs sem var minn veruleiki. En það er önnur saga á bak við. Ég vil einnig sýna þá von og staðfestu sem felst í því að gefast ekki upp, halda áfram þrátt fyrir allt. Ekkert er ekki hægt að eftirgera að öllu leiti. Allt tekur breytingum í tímans rás og verður að endanum annað. Þessi staðreynd hefur reynst mér ómetanleg stoð í mínu lífi: Öll él styttir upp um síðir; ekkert endist að eilífu – að eilífu!

SNART er skammstöfun fyrir Self-Narrative-ART eða sjálf sögulega list. Ég endurspegla mig í listsköpun minni; sé hver ég er í raun og veru. SNART er spegilskrift orðsins TRANS. Verkið SNART – ACTION 2018 er saga um stolt. Sagan getur sagt frá frelsi manneskju sem lifir lífinu til fulls og þorir að vera hún sjálf. Tími eftirsjár, haturs og sjálfsfyrirlitningar er liðinn. Ég hef unnið með orðið TRANS og speglað mig í því. Hvað þýðir það að vera trans? Hvað er kynvera? Hvað er mannvera? Orðið stendur fyrir hreyfingu, breytingu – en hvað þýðir það raunverulega? Hvað þýðir það að vera hinsegin? Má ég vera stolt yfir því að vera ég? Ég mátti það ekki, þannig var það. Núna hef ég gengið ákveðinn veg. Skömmin er farin. Ég er manneskja sem á minn stað í heiminum og get verið stolt yfir því að vera til! Í mínum huga eru verkin svörun við þeirri skömm sem samfélagið ánafnaði mér fyrir að vera ég og sýna þá sögu, þá leið sem ég fór.

Verkin MIMESIS og SNART – ACTION 2018 eru samtal. Þau sýna tvær hliðar á sjálfinu, fortíð og nútíð. Skömmin, afneitunin og hatrið standa í sterkri andstöðu við stoltið, samþykkið og gleðina. Annað verkið er unnið hratt, aftur og aftur á meðan hitt stendur eitt og sér, unnið á löngum tíma, af mikilli alúð og nákvæmni. Saman segja þau sögu, sögu mína og sögu samfélagsins.

Þetta er SNART.